Rauði krossinn hefur undanfarnar vikur hamast við að undirbúa íbúðir fyrir fjölskyldurnar á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem 48 stuðningsfjölskyldur eru í startholunum við að veita Sýrlendingunum aðstoð við að aðlaga sig samfélaginu.

„Það er mikill hugur í sjálfboðaliðum Rauða krossins, sem hafa undirbúið sig af miklum kappi fyrir komu flóttafólksins undanfarnar vikur,“ segir Þórir Guðmundsson deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík. „Okkur þykir skipta miklu máli að fólkið finni fyrir hlýhug Íslendinga og þess vegna viljum við að íbúðirnar sem fólkið flytur í séu heimilislegar. Það verður matur í ísskápnum, gluggatjöld fyrir gluggum og hlýr fatnaður til reiðu svo fólk geti byrjað strax að kynna sér nágrennið,“ segir hann.
Flóttamannahópurinn samanstendur af sex fjölskyldum, þar af eru 13 fullorðnir og 22 börn. Þrjár fjölskyldur til viðbótar sem höfðu lýst yfir áhuga á að koma hafa þó hætt við en engar skýringar lyggja fyrir hvers vegna.