Fótbolti

Roma rak Rudi Garcia | Áttundi þjálfarinn í Seríu A sem tekur pokann sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Síðasta verk Rudi Garcia sem þjálfara Roma var að mæta á uppskeruhátið FiFA á mánudagskvöldið.
Síðasta verk Rudi Garcia sem þjálfara Roma var að mæta á uppskeruhátið FiFA á mánudagskvöldið. Vísir/Getty
Rudi Garcia var í dag rekinn sem þjálfari Roma í ítölsku A-deildinni í fótbolta og nú hafa 30 prósent liða deildarinnar rekið þjálfara sinn á tímabilinu.

Átta þjálfarar hafa þurft að taka pokann sinn á leiktíðinni þar af hafa bæði Carpi og Palermo rekið tvo þjálfara. Bologna, Palermo, Sampdoria og Hellas Verona hafa einnig látið þjálfara sinn fara eins og Roma.

Rudi Garcia settist í þjálfarastólinn hjá Roma í júní 2013 eftir að hafa gert meðal annars Lille að frönskum meisturum árið 2011.

Roma vann tíu fyrstu leikina undir hans stjórn tímabilið 2013-14 og hefur endaði í öðru sæti undanfarin tvö tímabil.

Roma-liðið situr núna í fimmta sætinu í ítölsku deildinni en hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum og sá sigur kom á heimavelli á móti Genoa.

Síðasti leikur Roma undir stjórn Rudi Garcia var 1-1 jafnteflisleikur á móti AC Milan á laugardaginn var.

Luciano Spalletti mun taka við liði Roma af Rudi Garcia en hann þjálfaði síðast rússneska félagið Zenit Saint Petersburg.

Spalletti var með lið Roma frá 2005 til 2009 og gerði liðið meðal annars tvisvar sinnum að ítölskum bikarmeisturum (2007 og 2008). Spalletti vann rússneska titilinn tvisvar með Zenit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×