Erlent

B-52 sprengjuflugvélum flogið yfir Suður-Kóreu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
B-52 sprengjuflugvélin var í fylgd tveggja orrustuþota.
B-52 sprengjuflugvélin var í fylgd tveggja orrustuþota.
Bandaríski herinn hefur flogið B-52 sprengjuflugvél yfir Suður-Kóreu í kjölfar fregna af kjarnorkutilraunum nágranna þeirra í norðri.

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Un, hélt því fram á miðvikudag að vísindamenn landsins hefðu sprengt vetnissprengju. Hann sagði tilraunirnar vera varúðarráðstöfun vegna kjarnorkuógnarinnar sem landi hans stafar af Bandaríkjamönnum.

Tilraunir Norður-Kóreumanna hafa lagst illa í kínverska bandamenn þeirra rétt eins og stjórnvöld í Bandaríkjunum sem þó efast um fullyrðingar norður-kóreskra stjórnvalda.

Sjá einnig: Sameinuðu þjóðirnar íhuga að beita Norður-Kóreu þvingunum

Vetnissprengja notar kjarnasamruna til þess að framkalla mun kraftmeiri sprengingu en verður þegar kjarnorkusprengja springur og því ljóst að Norður Kóreumenn hafi tekið stórstígum framförum í vopnaþróun sinni reynist þetta rétt.

Erlendir sérfræðingar draga fullyrðingarnar þó mjög í efa og segja líklegra að um venjulega kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða.

B-52 sprengjuflugvélin sem Bandaríkjamenn flugu í nótt getur borið kjarnavopn og mátti sjá flogið lágflugi yfir Osan flugstöðina í fylgd tveggja orrustuþota. Í tilkynningu frá Bandaríkjaher var það gert til að bregðast við nýlegum örgrunum Norður-Kóreumanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkin hafa hnyklað vöðvana með þessum hætti í kjölfar tilrauna í norðri en það gerðu þau síðast árið 2013. Þá hótaði Norður-Kórea kjarnorkuárás á Bandaríkin.

Nánar er greint frá málinu á vef Reuters


Tengdar fréttir

Efast um fullyrðingar Norður-Kóreu

Sérfræðingar hafa sumir hverjir sagt ólíklegt að Norður-Kóreumenn hafi sprengt vetnissprengju í fyrrinótt, eins og þeir hafa stært sig af.

Norður-Kóreumenn segjast hafa sprengt vetnissprengju

Stjórnvöld í Norður Kóreu fullyrða að þeim hafi tekist að sprengja vetnissprengju á kjarnorkutilraunasvæði sínu í nótt. Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum í nágrannalöndunum og virðist skjálftinn hafa verið 5,1 stig við upptökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×