Skoðun

Vextir hér og vextir þar

Ingimundur Gíslason skrifar
Arionbanki er dæmigerður íslenskur banki. Þar eru 7,25% vextir af óverðtryggðu íbúðarláni á fyrsta veðrétti og þeir bundnir til 5 ára. Vextir af sams konar láni en verðtryggðu eru 3,80%.

Á Íslandi er fjármagnstekjuskattur 20%. Fjármagnskostnaður er ekki frádráttarbær frá fjármagnstekjum áður en kemur til skattlagningar þeirra. Á Íslandi er ekki leyfilegt að draga fjármagnskostnað frá tekjuskatti. Mér vitanlega er ekki hægt að semja um mismunandi hraða á greiðslu höfuðstóls.

Swedbank er dæmigerður sænskur banki. Þar eru vextir 2,35% af óverðtryggðu íbúðarláni fyrir allt að 85% af verðmæti eignarinnar og bundnir til 5 ára. Verðtryggð lán eru ekki í boði.

Í Svíþjóð er fjármagnstekjuskattur 30%. Á móti kemur að fjármagnskostnaður er dreginn frá fjármagnstekjum áður en til skattlagningar þeirra kemur. Sé fjármagnskostnaður meiri en fjármagnstekjur er hægt að draga mismuninn frá almennum sköttum eins og tekjuskatti að ákveðnu marki. Hægt er semja við bankann um hversu hratt höfuðstóll er greiddur upp. Stundum er nóg að greiða bara vexti tímabundið.

Er einhver að tala um lausn húsnæðisvandans hér á landi?

Er einhver að tala um landflótta ungs fólks með góða menntun?




Skoðun

Sjá meira


×