Skoðun

Taxi – please wait!

Lárus Lárusson skrifar
Kynslóð af Svíum getur ekki heyrt orðið taxi án þess að hugsa í framhaldinu: please wait. Ástæðan er sú að fyrir 25 árum var leigubílamarkaðurinn í Svíþjóð í svo miklum járnum reglusetningar og markaðshamla að framboð var langtum minna en eftirspurn. Fólk þurfi því að bíða lengi eftir bíl. Ástandið var þvílíkt að ekki þótti við unað og tóku Svíar djarft framfaraskref í að leysa leigubílamarkaðinn úr fjötrum reglusetningar eða eins og það er stundum kallað: freslun leigubílamarkaðarins. Við Íslendingar búum í dag við svipað kerfi og Svíar fyrir 25 árum.

Þó hafa verið gerðar breytingar til þess að mæta aukinni eftirspurn og auknum fjölda ferðamanna. Vandi leigubílamarkaðarins hér heima er tvíþættur. Annars vegar það að aðeins er gefið út eitt leigubílaleyfi á einstakling og hins vegar svæðisbundnar fjöldatakmarkanir.

Hvað fyrra atriðið varðar þá er það þannig að samgöngustofa getur út atvinnuleyfi fyrir leigubílstjóra. Í því felst að hver bílstjóri má aðeins reka eina bifreið og þarf leigubílaakstur að vera hans aðalstarf.

Af þessu leiðir tvennt, í fyrsta lagi að hver og einn leigubílstjóri telst vera sjálfstætt fyrirtæki eða sjálfstæður keppinautur í skilningi samkeppnislaga sem þýðir að leigubílstjórar mega ekki hafa með sér samráð um verð eða kjör eða önnur upplýsingaskipti um atriði sem tengjast rekstrinum.

Í öðru lagi leiðir af ofangreindu að á Íslandi er ekki til eiginlegar leigubílastöðvar eða taxi firm þar sem einn rekstraraðili á og rekur marga leigubíla og þar sem bílstjórar starfa sem launamenn. Það sem kallað er hér á landi leigubílastöð heitir tæknilega á ensku dispatching service company eða þjónustufyrirtæki fyrir leigubíla. Með því að heimila einum aðila að reka fleiri en eina leigubifreið og hafa bílstjóra á launaskrá myndi framboð og fjölbreytni aukast á leigubílamarkaði sem hefði í för með sér aukna samkeppni neytendum til hagsbóta. Þeir sem hefðu burði til þess að reka margar bifreiðar myndu þá geta starfað sjálfstætt og á eigin forsendum, með eigin verðlagningu og áherslum í þjónustu á meðan hinir sem kjósa að reka eina bifreið gætu haldið áfram að starfa innan vébanda þjónustufyrirtækjanna.

Í lögum um leigubifreiðar er kveðið á um þrjú svokölluð takmörkunarsvæði. Með takmörkunarsvæði er átt við landfræðilegt svæði þar sem hömlur eru settar á fjölda leigubíla sem starfa mega á svæðinu. Þannig mega t.d. aðeins 560 leigubílar starfa á svæði I sem telur höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbæ, Grindavík, Miðnes-, Gerða- og Vatnsleysustrandarhrepp. Á Akureyri eru 21 leigubílaleyfi en aðeins 8 leyfi í Árborg.

Eftir því sem höfundur kemst næst þá starfar sitthvort þjónustufyrirtækið fyrir leigubíla á Akureyri og Árborg en minnst 4 á svæði I. Sé tekið mið af íbúafjölda þá er einn leigubíll á hverja 416 íbúa á svæði I, 869 manns á hvern bíl á Akureyri en yfir þúsund manns á hvern leigubíl í Árborg. Hafa ber í huga að þótt þessi fjöldi leyfa sé skráður á hverju takmörkunarsvæði þá eru þau ekki öll starfandi eða í rekstri. Þá hækkar fjöldi einstaklinga á bíl ár frá ári með fjölgun íbúa í þéttbýli. Með því að takmarka fjölda þeirra sem starfa mega í greininni með þessum hætti er girt fyrir aðkomu nýrra aðila á markaði og um leið samkeppni skert. Samkeppni er neytendum til hagsbóta, hún er líka besta vinkona hagræðingarinnar eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins komst svo skemmtilega að orði.

Í dag ríkir algjör stöðnun á leigubílamarkaði. Þar sem hver leigubílstjóri telst sjálfstæður keppinautur þarf sérstaka undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu sem heimilar samtökum leigubílstjóra á hverri þjónustustöð fyrir sig að ákveða hámarks verðskrá. Þessar verðskrár eru einsleitar og leitun er að þeim bílstjóra sem keyri undir hámarks taxta. Í hvert skipti sem vakið er máls á breytingum á þessum markaði hefur því verið mætt með mismálefnalegri gagnrýni og oftar en ekki talað um mistökin sem Svíar gerðu fyrir 25 árum. Staðreyndin er aftur á móti sú að í dag mælist leigubílamarkaðurinn í Svíþjóð einna hæst á sænsku ánægjuvoginni hjá neytendum þar í landi. Það talar sínu máli.




Skoðun

Sjá meira


×