Menning

Dans fær börn til að nota ímyndunaraflið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hannes Þór og Þyri Huld eru bæði höfundar nýja dansverksins og aðaldansarar.
Hannes Þór og Þyri Huld eru bæði höfundar nýja dansverksins og aðaldansarar. Vísir/Stefán
„Við erum fimm á sviðinu. Söguþráðurinn er smá leyndó en þó getum við sagt þér að krakkarnir Óður og Flexa eru að halda afmæli. Þar kemur óræð persóna inn, hálfgerður töframaður, og hann fer með krakkana í dálítið skrítið ferðalag til að örva ímyndunar­afl þeirra,“ segir Hannes Þór Egilsson. „Já, það er ýmislegt sem kemur á óvart,“ segir Þyri Huld Árnadóttir.

Þau eru að lýsa nýju dansverki sem þau hafa búið til og verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins á laugardaginn klukkan eitt. Bæði eru þau dansarar við Íslenska dansflokkinn og verða sjálf í hlutverkum Óðs og Flexu – sem reyndar hafa ofurhetjukrafta eins og flestir krakkar.

Óður og Flexa halda afmæli er fyrsta frumsamda dansverkið fyrir börn sem Íslenski dansflokkurinn sýnir í fimmtán ár og það verður á fjölunum allar helgar í febrúar. Þau Hannes Þór og Þyri Huld sömdu það upp úr öðru verki sem þau sýndu bæði á Assitej-barnasviðslistahátíð og Barnamenningarhátíð 2014. Þau segja smá trúðsleik í dansinum en ekkert talað mál, heldur tjái persónur sig með hljóðum og auðvitað hreyfingum.

„Dans fær börn til að nota ímyndunaraflið. Þau geta séð svo margt út úr hlutunum,“ segir Þyri Huld. „Svo er tónlistin stór þáttur í verkinu, við notum klassíska tónlist og hún teiknar upp hreyfingarnar.“

Bæði telja þau Hannes Þór og Þyri Huld afar jákvætt að Íslenski dansflokkurinn sinni börnum landsins og fái þau ung á sýningar, þannig ali hann upp framtíðaráhorfendur.

Prumpuskrímsli, geimverur og fljúgandi marglyttur koma við sögu í verkinu. Mynd/Jónatan Grétarsson
„Mörg börn stunda ballett og annan dans meðan þau eru ung en hætta svo. Ég held það sé gott fyrir krakka að sjá hvað dans getur verið áhugaverð vinna,“ segir Hannes Þór sem hefur dansað frá sex ára aldri.

Þyri Huld kveðst hafa verið í ballett og djassballett sem barn. „Elsti bróðir minn var í breikdansi og það fannst mér mjög töff. Þar sá ég að það var hægt að gera eitthvað svalt með dansinum.“

En hvaða aldri er sýningin þeirra ætluð? „Við segjum að hún sé fyrir þriggja til níu ára en erum búin að fá börn á öllum aldri á æfingarnar, allt frá eins árs og upp úr og þau virðast öll hafa gaman af,“ segir Þyri Huld. „Já,“ segir Hannes Þór. „Þetta er fjölskyldusýning og miðaverðið bara 2.500 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.