Skoðun

Þökkum þjóðinni stuðninginn

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir skrifar
Síðastliðinn september stóðu samtökin Á allra vörum fyrir landssöfnun undir yfirskriftinni Einelti er ógeð og var í þetta sinn lögð áhersla á bætt samskipti á meðal barna og unglinga. Á allra vörum völdu Erindi - samtök um samskipti og skólamál með það að markmiði að opna samskiptasetur. Eins og áður tók þjóðin tók söfnuninni vel enda snerta samskiptamál barna og unglinga margar fjölskyldur. Fólk vill láta gott af sér leiða og safnaðist upphæð fyrir rekstri samskiptaseturs í fjögur ár. Fyrir það erum við þjóðinni þakklát. 

Að baki Erindistanda tíu manns sem hafa áratugareynslu á sviði skólamála sem kennarar, náms – og starfsráðgjafar og uppeldisfræðingar. Þetta eru Anna Hulda Einarsdóttir kennari í Reykjanesbæ, Björg Jónsdóttir kennari í Garðabæ, Karen Ósk Úlfarsdóttir kennari í Reykjavík, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir kennari Mosfellsbæ, Kristín Lilliendahl kennari Mosfellsbæ og núverandi kennari við menntavísindasvið Háskóla Íslands, Lóa Hrönn Harðardóttir náms – og starfsráðgjafi við Háskólann í Reykjavík, Svandís Sturludóttir náms – og starfsráðgjafi í Reykjavík, Hermann Jónsson uppeldisfræðingur, Selma Björk Hermannsdóttir framhaldsskólanemi og  Sara Dögg Svanhildardóttir kennari og starfskona Erindis. Eftir áratuga reynslu í starfi sá þessi hópur að góð samskipti og gagnkvæm virðing vega þungt innan veggja skólans. Séu þessi atriði ekki í lagi er skólinn ekki líklegur til að sýna hvað í honum og nemendum býr. 

Opnun samskiptaseturs

Erindi, hafa að markmiði að veita með þjónustu sinni markvissan stuðning í hvers kyns samskiptavanda barna og unglinga með sérstaka áherslu á úrræði í samskiptavanda eða eineltismálum. Samskiptamál geta verið flókin úrlausnar og verða alvarleg ef nemendur fá ekki aðstoð áður en í óefni er komið. Því miður eru alltof mörg dæmi þess að börn og unglingar hafi þurft að lúta í lægra haldi vegna samskiptavanda. Því viljum við  breyta og kalla á fræðslu og lausnir til handa öllum þeim sem að erfiðum málum koma. 

Kennum góð samskipti

Ráðgjafar Erindis leggja áherslu á að börnum séu kennd jákvæð samskipti og hvernig hægt sé að takast á við erfið samskipti með jákvæðu hugarfari. Það gerir gæfumuninn en er ekki endilega auðvelt í framkvæmd. Foreldrar og kennarar eru í lykilhlutverki í lífi barna og eru þeirra helstu fyrirmyndir. Nemendur sem hefja skólagöngu hafa ekki prófgráður í samskiptum og margir foreldrar myndu þiggja stuðning í uppeldishlutverki sínu. 

Foreldrar í aðalhlutverki

Samskiptavandamál eða eineltismál koma oft upp og reynist mörgum erfiður ljár í þúfu. Markmið hvers kennara er að nemendur nái árangri í námi sínu en ef staðblær bekkjarins eða alls skólans er ekki góður verður minna um námsárangur. Stoðþjónusta skólanna tekst á við verkefni á hverjum degi sem flest eiga rætur að rekja til samskipta nemenda á milli. Foreldar eru í aðalhlutverki þegar kemur að lausn samskiptamála. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og verður seint dregið úr mikilvægi þess að börn fari með gott veganesti að heiman út í lífið. Hjá Erindi fá foreldrar fræðslu og ráðgjöf  og þann stuðning sem þarf til að auka lífsgæði og hamingju sem hvert barn á skilið að lifa við. 

Fyrir hönd Erindis, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

 




Skoðun

Sjá meira


×