Erlent

Sótt að Dönum á Evrópuþingi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Inger Støjberg útlendingamálaráðherra og Kristian Jensen utanríkisráðherra í Brussel í gær.
Inger Støjberg útlendingamálaráðherra og Kristian Jensen utanríkisráðherra í Brussel í gær. vísir/EPA
Tveir ráðherrar úr dönsku stjórninni sátu undir harkalegri gagnrýni frá þingmönnum Evrópuþingsins í gær, þar sem áform Dana um að taka fé af flóttafólki voru til umræðu.

Þau Kristian Jensen utanríkisráðherra og Inger Støjberg útlendingamálaráðherra sögðu nýju reglurnar, sem væntanlega verða samþykktar á danska þinginu í dag, vera sanngjarnar.

Þingmenn vildu meðal annars fá skýringar á því hvernig dönsk yfirvöld ætluðu sér að leggja mat á tilfinningalegt gildi verðmæta, sem flóttafólk kemur með til Danmerkur.

Cecilia Wikström frá Svíþjóð spurði hvort Evrópulönd væru nú komin í „kapphlaup niður á botninn“, þar sem keppst væri um að fæla hælisleitendur frá með því að hafa reglurnar sem óaðgengilegastar.

Jensen svaraði því meðal annars til að nauðsynlegt væri að Evrópusambandið fyndi sameiginlegar lausnir gagnvart þessum vanda.

Þá sagði Støjberg það grundvallaratriði að þeir, sem geta bjargað sér sjálfir, fái ekki aðstoð frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×