Enski boltinn

Níu marka veisla þegar Liverpool vann Norwich | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adam Lallana tryggði Liverpool sigur á Norwich, 4-5, í ótrúlegum leik á Carrow Road.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að ofan.

Það er jafnan mikið skorað þegar þessi lið mætast en það hafa verið skoruð 24 mörk í síðustu fjórum leikjum leikjum liðanna á Carrow Road.

Liverpool komst með sigrinum upp í 7. sæti deildarinnar en Norwich er í því sextánda, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

Leikurinn var frábær skemmtun og dramatískur í meira lagi.

Roberto Firmino kom Liverpool yfir á 18. mínútu en síðan tóku heimamenn yfir. Dieumerci Mbokani jafnaði metin með skemmtilegri hælspyrnu á 29. mínútu og tólf mínútum síðar kom Steven Naismith Norwich yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið.

Staðan var 2-1 í hálfleik en eftir níu mínútna leik í seinni hálfleik náði Naismith í vítaspyrnu sem Wes Hoolahan skoraði úr.

Jordan Henderson minnkaði muninn í 3-2 á 55. mínútu og átta mínútum síðar jafnaði Firmino metin með sínu öðru marki.

Fjörið var ekki búið því James Milner kom Liverpool yfir, 3-4, eftir fáránleg mistök Russell Martin, fyrirliða Norwich.

Sebastien Bassong virtist vera búinn að tryggja Norwich stig þegar hann jafnaði á annarri mínútu í uppbótartíma en Lallana var á öðru máli. Hann skoraði sigurmark Liverpool á 95. mínútu og tryggði Rauða hernum öll stigin þrjú.

Lokatölur 4-5 í ævintýralegum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×