Erlent

„Hvað með að bjarga flóttamönnunum?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hugo Brady hélt erindi í Háskóla Íslands í gær.
Hugo Brady hélt erindi í Háskóla Íslands í gær. vísir/vilhelm
Ekkert lát er á miklum straumi flóttafólks til Evrópu. Kerfið sem Evrópusambandið hefur komið sér upp til að taka á móti flóttamönnum ræður hins vegar illa við þennan mikla fjölda eins og hefur sýnt sig í mismunandi aðgerðum sem hin ýmsu lönd ESB hafa gripið til á seinustu mánuðum.

Það þarf því að endurskoða kerfið, meðal annars Dyflinnarreglugerðina og hvernig hægt sé að dreifa flóttamönnum á jafnari hátt á milli landa álfunnar. Þá þarf jafnframt að virkja samkomulag við Tyrki sem felur það í sér að flóttamenn fari ekki þaðan og yfir til Evrópu, gegn því að ESB veiti Tyrklandi meðal annars fjárhagsstuðning. Hvergi í heiminum eru fleiri flóttamenn en í Tyrklandi, eða yfir 2 milljónir manna.

Það er hins vegar ekki hlaupið að því að leysa vandann eins og kom fram í máli Hugo Brady, ráðgjafa Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB. Brady hélt erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í gær sem bar yfirskriftina "Understanding the Syrian Refugee Crisis and EU."

Ljósmynd af hinum þriggja ára Aylan Kurdi þar sem hann lá látinn í flæðarmálinu í Bodrum í Tyrklandi hreyfði mikið við heimsbyggðinni.Vísir/AFP
Myndin sem breytti öllu

Langflestir þeirra flóttamanna sem komu til Evrópu á seinasta ári voru frá Sýrlandi en alls komu á milli 1,2 til 1,5 milljónir flóttamanna til álfunnar í fyrra. Brady sagði að þó að ljóst væri að breyta þyrfti kerfinu til að takast á við þennan mikla fjölda þá væri það ekki svo að ESB hefði ekkert gert fyrir flóttafólk. Það hefði verið tekið á móti þeim sem komu til Evrópu auk þess sem 150 þúsund mannslífum hefði verið bjargað, aðallega á sjó. 

Í erindi Brady kom meðal annars fram að þegar leið smyglara sem flytja flóttafólk til Evrópu breyttist í júní í fyrra og færðist frá Ítalíu til Grikklands og Balkanskaga var ESB enn fókuserað á að veita aðstoð á svokölluðum heitum reitum á Ítalíu og að bjarga flóttamönnum frá drukknun á Miðjarðarhafi. Yfirvöld í álfunni áttuðu sig nefnilega ekki á því að leiðin inn í álfuna væri að breytast.

„Smyglararnir vinna einfaldlega hraðar en ESB og það tekur líka sinn tíma fyrir 28 aðildarríki að koma sér saman um aðgerðir,“ sagði Brady meðal annars í erindi sínu í gær. 

Það var síðan fréttaljósmynd af Aylan litla, þriggja ára Sýrlendingi, sem drukknaði undan strönd Tyrklands sem breytti öllu, að sögn Brady. Myndin fór eins og eldur í sinu um internetið í byrjun september í fyrra en Aylan var á flótta ásamt fjölskyldu sinni vegna borgarastríðsins í Sýrlandi. Myndin vakti mikinn óhug og mikla reiði á meðal almennings í Evrópu sem átöldu stjórnvöld fyrir að gera lítið sem ekkert til að aðstoða flóttamenn. 

„Ekkert veldur eins miklu óöryggi hjá almenningi og flóttafólk“

Í október opnaði Angela Merkel svo landamæri Þýskalands en það var eitthvað sem enginn annar þjóðarleiðtogi hafði gert. Í sama mánuði komu 215 þúsund flóttamenn til Evrópu en aldrei fyrr höfðu svo margir komið til álfunnar í einum mánuði. Nokkrum vikum eftir að Merkel opnaði landamærin var hins vegar tekið upp eftirlit á þýsku landamærunum í samræmi við það sem leyfilegt er innan Schengen. 

Mikið hefur verið rætt um árásirnar sem áttu sér stað í Köln að kvöldi gamlársdags.Vísir/AFP
Samúð almennings með flóttamönnum er þó afskaplega brothætt, að sögn Brady, og vísaði meðal annars í orðræðuna í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í nóvember síðastliðnum og árásanna í Köln á nýársnótt. Þá sé það jafnframt svo að þegar yfirvöld virðist ekki ráða við ástandið þá sé það vatn á myllu stjórnmálaafla sem tali gegn innflytjendum.

„Hverjir græða á því að við eyðum tíma í að reyna að koma okkur saman um hvað skal gera? Jú, hægriöfgaflokkarnir, og það hræðir. Það er samt bara þannig að ekkert veldur eins miklu óöryggi hjá almenningi og flóttafólk. Flóttafólk veldur meira óöryggi hjá almenningi en hryðjuverkamenn,“ sagði Brady.

Mikilvægt að Schengen virki

Þá hafa önnur lönd gripið til þess að taka upp landamæraeftirlit innan Schengen-svæðisins vegna flóttamannastraumsins en þrátt fyrir það telur Brady ekki að Schengen sé að líða undir lok. Það þurfi þó að huga að kerfinu þannig að það geti virkað sem skyldi.

„Það er sagt við okkur að við í Evrópusambandinu viljum bara bjarga kerfinu okkar? Hvað með að bjarga flóttamönnunum? Ég segi að það skiptir máli að bjarga bæði Schengen og flóttamönnunum. Með Schengen höfum við í fyrsta skipti frítt flæði fólks á milli landa Evrópu síðan fyrir fyrri heimsstyrjöldina og ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því þannig. [...] Lykillinn að því er að tryggja ytri landamæri Evrópu og svo verðum við að geta veitt flóttafólkinu sem hingað kemur þá þjónustu sem það þarf.“

Aðildarríki ESB greinir hins vegar á um leiðir að því markmiði að tryggja ytri landamærin en Brady segir augljóst að koma þurfi reglu á hlutina þar sem ríki á borð við Grikkland ráði einfaldlega ekki við fjöldann sem þangað kemur á degi hverjum. Það sé verkefnið sem ESB standi frammi fyrir núna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×