Erlent

Laun til vígamanna ISIS lækka um helming

Atli Ísleifsson skrifar
ISIS hefur þurft að þola röð ósigra að undanförnu sem hefur skilað sér í minnkandi „skatttekjum“.
ISIS hefur þurft að þola röð ósigra að undanförnu sem hefur skilað sér í minnkandi „skatttekjum“. Vísir/AFP
Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa ákveðið að lækka laun til vígamanna sinna um helming. Fjárhagslegir erfiðleikar samtakanna að undanförnu hafa nú neytt leiðtoga ISIS til að bregðast við.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem eru með aðsetur í London, greina frá þessu, en samtökin búa yfir viðtæku neti heimildarmanna í Sýrlandi.

Samtökin hafa nú birt bréf sem ISIS hefur sent öllum liðsmönnum sínum. „Vegna sérstakra aðstæðna sem Ríki íslams stendur nú frammi fyrir, hefur verið tekin ákvörðun um að lækka laun stríðsmanna [mujahideen] um helming.“ Enginn sé undanskilinn, en þær matarúthlutanir, sem eiga sér stað tvisvar í mánuði, mun halda áfram.

Í frétt SVT kemur fram að margir vígamenn ISIS hafi talið laun sín hjá samtökunum sannkölluð draumalaun, þar sem þeir hafi fengið tvöfalt meira en hermenn stjórnarhers Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Erlendur vígamaður hjá samtökunum fékk áður átta hundruð Bandaríkjadali, rúmar 100 þúsund krónur, á mánuði, en launin munu nú lækka um helming í fjögur hundruð Bandaríkjadali. Aðrir þeir sem berjast á þeim landsvæðum í Sýrlandi og Írak sem ISIS ræður yfir fá nú tvö hundruð Bandaríkjadali á mánuði.

ISIS hefur þurft að þola röð ósigra að undanförnu sem hefur skilað sér í minnkandi „skatttekjum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×