Menning

Öllum ferðum aflýst

Jónas Sen skrifar
Frá flutningi á verkinu Gos eftir Petter Ekman.
Frá flutningi á verkinu Gos eftir Petter Ekman.
Tónlist

Söng- og kammertónleikar

Upphafstónleikar Myrkra músíkdaga

Verk eftir Halldór Smárason, Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Petter Ekman. Flytjendur voru Elísabet Einarsdóttir og Elektra Ensemble

Kaldalón í Hörpu

Fimmtudaginn 28. janúar



Myrkir músíkdagar hófust á slökunaræfingu. Ha? Jú, fyrstu tónleikar hátíðarinnar fóru fram í Kaldalóni í Hörpu og upphafsatriðið, Vegfarendur og ég, var eftir Halldór Smárason. Þar var söngkona sem hét Elísabet Einarsdóttir og fór með áheyrendur í gegnum slökunina. Hún talaði, en söng hluta af æfingunni. Fyrir ofan sviðið var varpað dáleiðandi myndskeiði, umferðinni á gatnamótum Framnesvegar og Hringbrautar. Fyrst var dagur, en smám saman tók að dimma og loks var komin nótt.

Eftir þessu var tónlistin leiðslukennd. Hljóðfæraleikurinn var höndunum á Elektru Ensemble, sem samanstendur af Ástríði Öldu Sigurðardóttur, Emílíu Rós Sigfúsdóttur, Helgu Björgu Arnardóttur, Helgu Þóru Björgvinsdóttur og Guðnýju Jónasdóttur. Í fyrstu var tónlistin öll á yfirborðinu, aðallega þytur og brak. En eftir því sem slökunin dýpkaði mýktust tónarnir og það brá fyrir votti af ljóðrænu. Hugsanlega hefði verið hægt að fara lengra með þá stemningu. Maður býst við öðru og meiru en bara venjulegri slökunaræfingu á svona tónleikum.

Næst á dagskránni var Nið(ur) eftir Báru Gísladóttur. Það var mjög afstrakt, en gætt fallegum blæbrigðum. Að ósekju hefði mátt vera sterkari framvinda í tónlistinni. Sömu sögu er að segja um Stjórn eftir Finn Karlsson, sem var nokkuð ládeyðukennd. Hins vegar skartaði tónlistin hrífandi laglínum, en það hefði sennilega þurft að vinna betur úr þeim.

Síðasta verkið á efnisskránni var aftur á móti magnað. Það bar nafnið Gos og var eftir Petter Ekman. Þetta var hálfgerður leikhúsgjörningur þar sem söngkonan Elísabet lék konu á flugvelli. Það var búið að aflýsa öllum flugferðunum, væntanlega vegna gossins í Eyjafjallajökli. Vesalings konan var strandaglópur í flugstöðinni. Farþegarnir fengu enga þjónustu, og konan var hrikalega svöng! Hún tók upp BlackBerry síma til að láta vita af sér og reyndi því næst að drepa tímann með að vinna í tölvunni sinni. Um þetta söng hún og það var svo fyndið að maður veltist um af hlátri. Tónlistin var skemmtilega lifandi og náði að miðla tilfinningum konunnar til áheyrenda. Hún var myndræn og dramatísk, en líka létt og leikandi. Söngurinn var ákaflega vandaður og tilþrifamikill og hljóðfæraleikurinn var pottþéttur. Þetta var frábært!

Niðurstaða: Megnið af verkunum voru nokkuð flatneskjuleg, en eitt þeirra var afar skemmtilegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×