Skoðun

Áskorun!

Hólmgeir Baldursson skrifar
Gististaðir kalla nú eftir því að girt sé fyrir ólögmæta starfsemi þar sem boðin er gisting án tilskilinna leyfa. Mér varð hugsað til fjölmargra gististaða sem hundsa að afla sér tilskilinna leyfa til að bjóða gestum sínum afþreyingu. Líta á það sem sjálfsagt mál að tengja bara eitthvað frá einhverjum án þess að gæta að því að sjónvarpsefni er höfundarvarið.

Sportbarir spretta nú upp eins og gorkúlur og telja það í góðu lagi að tengja Sky myndlykil frá Englandi og opna dyrnar fyrir viðskiptavini. Þetta er ekki í lagi. Einhverjir kynnu að halda að bareigandinn sem keypti gríska myndlyklaáskrift hefði eitthvað breytt þessu, en svo er ekki. 365 er einkarétthafi Premier League hér á landi en ekki Sky eða aðilar sem „kenna“ sig við þá hér á landi. Þeir bjóða þetta án þeirra leyfis eða samþykkis auðvitað. BSkyB rekur ekki neitt „söluapparat“ hér á landi, þannig að það sé öllum ljóst.

Ég rek sérhæft sjónvarpsfyrirtæki sem er leyfishafi fjölmargra erlendra & innlendra sjónvarpsstöðva sem er ástæða þess að ég rita þessa grein. Við erum einmitt að kynna starfsemina fyrir aðilum sem reka sportbari, hótel, gistiheimili og aðra starfsemi þar sem sjónvarp er notað til að auka ánægju gesta til afþreyingar eða upplýsinga.

Ný hótel sem einnig spretta upp virða ekki réttindi þessara sjónvarpsstöðva eins og BBC, CNN og fleiri heldur „kaupa“ alls kyns „tengingar“ af fyrirtækjum og einstaklingum sem flagga alls kyns „fullyrðingum“, en ljóst er að réttur til að veita slíka þjónustu má aldrei vera í vafa og því eru rekstraraðilar hvattir til að kynna sér þessi mál og láta sig það varða að eiga viðskipti við aðila sem sannanlega eru rétthafar sjónvarpsefnisins hér á landi, því hver er eiginlega tilgangur þess að semja um réttindi eins og við gerum hér og svo veður allt uppi í all skyns vitleysu og enginn tekur ábyrgð?

Er það sanngjarnt að hótel eða sportbar sem kýs að hafa sín samningsmál á hreinu og greiðir afnot til rétthafans þurfi að horfa upp á næsta aðila við hliðina hegða sér eins og sjóræningi? Það er bara ekki í lagi. Hér er verið að reyna að höfða til viðskiptasiðferðis rekstraraðila því lögaðgerðir og annað vesen skila aldrei neinu nema leiðindum og kostnaði.

Sky Sports, ITV, Film4, True Movies, BBC1, BBC2 & BBC3 eru ekki lögmætar stöðvar hér á landi. Það má ekki selja þær til rekstraraðila. Og eitt að lokum, Rafverktakar: Hættið nú að bjóða ólöglegt sjónvarpsefni til hótela og gistiheimila, því ekki tengja þetta menn sem ekki kunna neitt til verka.

Þessu verður ekki breytt á einni nóttu svo mikið er víst, en sá dagur mun renna upp fyrr en síðar að hér á landi mun þrífast heilbrigður markaður með áskrift að höfundarvörðu sjónvarpsefni og rekstraraðilar munu sjá sóma sinn í því að miðla efni sem fengið er eftir lögmætum dreifingarleiðum til viðskiptavina sinna. Vonandi er sá dagur skammt undan.




Skoðun

Sjá meira


×