Enski boltinn

Gylfi: Vonandi held ég áfram að skora

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi fagnar marki sínu gegn Swansea.
Gylfi fagnar marki sínu gegn Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið sjóðheitur upp við mark andstæðinganna að undanförnu og skorað fimm mörk í síðustu sex deildarleikjum Swansea City.

Gylfi skoraði mark Swansea í 1-1 jafntefli gegn Crystal Palace á laugardaginn en þetta var sjöunda deildarmark hans á tímabilinu.

Sjá einnig: Gylfi jafnaði fjórtán ára afrek Eiðs Smára

Gylfi er þegar búinn að jafna markafjölda sinn frá því á síðasta tímabili og þá hefur enginn miðjumaður í úrvalsdeildinni skorað jafn mörg mörk og hann á árinu 2016 (5).

„Það tók mig tíma að komast í gang í markaskorun en ég er á góðri siglingu núna,“ sagði Gylfi í samtali við heimasíðu Swansea.

Gylfi skoraði markið gegn Palace með góðu skoti beint úr aukaspyrnu.

„Ég hafði góða tilfinningu fyrir aukaspyrnunni og hitti boltann vel. Þetta kom okkur á bragðið og við vorum nálægt því að skora annað mark en það gekk ekki,“ sagði Gylfi sem er ánægður með frammistöðu Swansea í undanförnum leikjum.

„Vonandi held ég áfram að skora en mikilvægast er að liðið vinni leiki. Það voru vonbrigði að gera jafntefli við Palace, sérstaklega í ljósi þess að við náðum forystunni, en við erum að spila mun betur en við gerðum og það er jákvætt,“ bætti íslenski landsliðsmaðurinn við.

Sjá einnig: Gylfi kemur nýgiftum stuðningsmanni Swansea á óvar | Myndband

Swansea hefur fengið átta stig úr síðustu fjórum leikjum sínum og er nú fjórum stigum frá fallsæti þegar 13 umferðum er ólokið í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×