Erlent

Skutu eldflauginni á loft í nótt

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kim Jong-Un fylgdist með skotinu í nótt.
Kim Jong-Un fylgdist með skotinu í nótt. vísir/afp
Yfirvöld í Norður-Kóreu komu að eigin sögn gervitungli á braut um jörðu í nótt. Eldflaug var skotið á loft skömmu eftir miðnætti en til stóð að henni yrði skotið upp í næstu viku. Stjórnvöld segja að um sé að ræða hluta af fimm ára geimvísindaáætlun landsins.

Eldflaugarskotið hefur verið fordæmt víða og sagt að um sé að ræða tilraun með langdræg flugskeyti sem gætu borið kjarnorkusprengjur.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til neyðarfundar í New York síðar í dag vegna málsins. Bandaríkin og Japan kölluðu eftir fundinum en yfirvöld í Bandaríkjunum segjast líta á tilraunina sem ögrun og vilja beita Norður-Kóreu frekari viðskiptaþvingunum.

Þá hyggjast varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefja formlegar viðræður um að koma upp bandarísku loftvarnarkerfi á Kóreuskaga vegna vaxandi ógnar.

Sameinuðu þjóðunum hafði verið tilkynnt um fyrirhugað eldflaugarskot sem áætlað var á bilinu 8. - 25. febrúar. Suður-Kóreumenn fullyrtu svo í gær að nágrannar þeirra í norðri hefðu flýtt áætlunum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×