Innlent

Framleiðendur matvæla úr skordýrum þurfa leyfi frá ESB

Bjarki Ármannsson skrifar
Steiktar krybbur þykja herramannsmatur víða um heim, en ekki er hefð fyrir skordýraáti í Evrópu.
Steiktar krybbur þykja herramannsmatur víða um heim, en ekki er hefð fyrir skordýraáti í Evrópu. Vísir/Getty
Framleiðendur orkustanga sem innihalda prótein unnið úr krybbum þurfa að sækja um leyfi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að fá að selja þær í verslunum hér á landi.

Reglugerð sem fjallar um nýfæði, sem er allur matur sem ekki var hefð fyrir í Evrópu fyrir árið 1997, kemur í veg fyrir sölu orkustanganna. Reglugerðin sem gildir um þessi matvæli kveður á um að sækja þurfi um sérstakt leyfi til þess að setja þau á markað.

Sjá einnig: Fá ekki leyfi til að selja orkustykki úr krybbum

Helga Margrét Pálsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir að það sé einfaldlega svo að engin umsókn hafi borist um markaðssetningu skordýraafurða í Evrópu. Það felur meðal annars í sér að skordýraafurðir hafi ekki gengist undir áhættumat.

„Til þess að mega markaðssetja þetta þá þarf að fá leyfi og matvælin þurfa að gangast undir áhættumat áður en ákvörðun er tekin um hvort matvælin verði leyfð eða ekki,“ segir Helga Margrét. „Staðan er sú að í Evrópu hefur ekki verið sótt um leyfi fyrir neinu skordýri og skordýr eru bara ekki leyfð á neytendamarkaði.“

Matvælastofnun.Vísir/Pjetur
Þannig að það þarf einfaldlega að sækja um leyfi til Evrópusambandsins?

„Já, í rauninni,“ segir Helga. „Þetta eru samræmdar reglur sem við tókum upp síðasta október. Það er hægt að sækja um, þá fer umsóknin í gegnum matvælastofnun í viðkomandi landi og til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem svo fjallar um umsóknina.“

Helga segist ekki beint geta svarað því hvort hættulegt sé að borða skordýr fyrst matvælin eru ekki leyfð.

„Hinsvegar er mikið verið að skoða skordýr í Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að skoða skordýr með tilliti til matvæla og einnig til fóðurs.“

Hún segir það þannig alveg geta gerst á næstu árum að Evrópubúar fái tækifæri til að gæða sér á skordýraafurðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×