Skoðun

Gæfuspor - Vökudeild Barnaspítala Hringsins 40 ára

Ragnheiður Sigurðardóttir og Rakel B. Jónsdóttir skrifar
Umönnun barna sem fæðast fyrir áætlaðan fæðingartíma, barna sem eru veik við fæðingu eða veikjast stuttu eftir fæðingu hefur tekið miklum breytingum á síðustu 50 árum. Margar sögur eru til um mjög lítil börn sem hafi fæðst hér og þar um landið á árum áður. Sögurnar segja gjarnan að börnin hafi verið sett í skókassa með bómull í, eða einhverju hlýju og mjúku og kassinn meira eða minna hafður á miðstöðvarofni til að halda hita á barninu. Notaður var einskonar skammtari sem hægt var að nota líkt og dropateljara við næringargjöf um munn, en lítið annað gert. Í mörgum tilvikum er talað um að ljósmæður hafi annast um börnin , eða vakað yfir þeim. Sagnir eru til um lífgunartilraunir á börnum en ekki tíundað í hverju þær fólust eða hvernig þær voru framkvæmdar. Sögurnar segja að mörg þessara barna hafi komist á legg og ágætlega hafi gengið með þau í framhaldi af þessari umönnun. Sennilegt má telja að flest þessara barna hafi verið léttburar (léttari en ráð var gert fyrir miðað við meðgöngulengd) fremur en að þau hafi verið fyrirburar, þar sem vitað er í dag er að miklir fyrirburar geta ekki lifað  af án mikillar utanaðkomandi aðstoðar (eða íhlutunar) .

Fram til ársins 1949 fæddust öll börn á Íslandi í heimahúsum bæði heilbrigð og veik , en þá tók fæðingardeild Landspítala til starfa. Fyrstu árin önnuðust fæðingalæknar og ljósmæður meðferð veikra nýbura. Þegar Barnadeild Landspítala tók til starfa 1957 fóru barnalæknar og barnahjúkrunarfræðingar að sinna þessum sjúklingahópi. Víða  erlendis, þá sérstaklega í Norður Ameríku, voru á þessum árum nýburalækningar og nýburahjúkrun að ryðja sér rúms sem sérstök fræðigrein. Árið 1961 var í fyrsta skipti barnalæknir ráðinn í hlutastarf á Fæðingadeild Landspítalans til að sinna veikum nýfæddum börnumsérstaklega. Það var Gunnar Biering sem verið hafði  í framhaldsnámi í Bandaríkjunum. Gunnar ásamt ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum á Fæðingardeildinni réðust strax í að reyna að bæta mjög svo ófullnægjandi aðstöðu fyrir veika nýbura og má segja að þarna hafi verið tekin fyrstu skrefin í átt að sérhæfðri nýburameðferð hér á landi. Á árunum 1960-1970 kynntust bæði læknar og hjúkrunarfræðingar nýrri meðferð fyrirbura og veikra nýbura við nám og störf erlendis. En það tók mörg ár að vinna málum fyrirbura og veikra nýbura og fjölskyldum þeirra fylgi og undirbúa viðeigandi þjónustu hér á landi.  Ljóst þótti að mörgum börnum sem lentu í veikindum og vandræðum fyrst eftir fæðingu, mætti bjarga með betri læknis- og hjúkrunarmeðferð. Áður hafði áherslan fremur verið á heilsu móðurinnar en ófædda barnsins en með aukinni þekkingu, tækni og nýjum lyfjum jukust lífslíkur veikra nýbura umtalsvert. Það var því mikið gæfuspor þegar Vökudeild – nýbura gjörgæsludeild Barnaspítala Hringsins var opnuð þann 2. febrúar 1976. Um leið og Vökudeildin tók til starfa var ákveðið að hún skildi tilheyra Barnaspítala Hringsins eins og tíðkaðist um þannig deildir erlendis.  

Óhætt er að segja að ef ekki hefði notið eindregins stuðnings lækna og ljósmæðra Fæðingardeildar við stofnun Vökudeildar, hefði deildin seint náð að þróast jafnvel hér á landi eins og raun ber vitni um. Þar fór fremstur í góðum hópi Gunnlaugur Snædal læknir, sem síðar varð prófessor og yfirlæknir Kvennadeildar Landspítalans. Deildin hlaut þegar í upphafi góðar tækjagjafir úr ýmsum áttum og var þess vegna strax ágætlega tækjum búin. Kvenfélagið Hringurinn varð frá fyrsta degi mikilvægur bakhjarl Vökudeildar, og hafa Hringskonur látið sig starfið og starfsemina miklu varða og jafnan komið færandi hendi við ýmis tækifæri, ásamt því að sinna kalli þegar til þeirra hefur verið leitað. Hlutur Hringskvenna í vexti og viðgangi Vökudeildar er stór kafli út af fyrir sig í sögu Barnaspítala Hringsins og verður seint að fullu þakkaður. Fyrir þeirra tilstilli hafa starfsmenn deildarinnar getað borið höfuðið hátt meðal jafningja í nágrannalöndum, hvort heldur er austan hafs eða vestan og sýnt árangur sem vakið hefur athygli. Til mats á árangri nýburagjörgæsludeilda og til samanburðar á milli landa, er oft notast við burðarmálsdauða (BMD). BMD er fjöldi andvana fæddra barna og fjöldi lifandi  fæddra barna sem látast á fyrstu viku eftir fæðinguna fyrir hver 1000 fædd börn.    Árið 1968 var BMD á Íslandi 23,8/1000, árið 1976 þegar Vökudeildin hóf starfsemi sína var BMD 10,1/1000 en árið 2013 var BMD 3/1000, sem er með því lægsta sem skráð er í heiminum.  Árangur í fæðingarhjálp, nýburalækningum og nýbura hjúkrun á Íslandi er mjög góður.

Sjúklingahópur Vökudeildar hefur alla tíð verið veik nýfædd börn, bæði fyrirburar og fullburða börn sem yfirleitt leggjast inn á deildina á fyrstu mínútum eða klukkustundum lífs síns. Breytingar og framfarir í meðgöngu- og fæðingarhjálp hafa haft í för með sér að ýmis vandamál sem áður komu upp sjást vart lengur, en jafnframt hafa lífslíkur mikilla fyrirbura  aukist mjög mikið og nú er svo komið að um 80  % barna með fæðingarþyngd undir 1000gr lifa. Þrátt fyrir þessar breytingar hefur hlutfall innlagðra barna af þeim sem fæðast árlega lítið breyst á síðustu 40 árum, en um 15-20% allra barna sem fæðast ár hvert á Íslandi leggjast inn eða koma til eftirlits á Vökudeildina, það eru um 600-700 börn á ári. Af þeim eru um 30-40 börn sem fæðast léttari en 1500gr.

 

Þegar Vökudeildin tók til starfa árið 1976, fékk starfsemin úthlutað um 140m2 húsnæði sem rúma átti alla starfsemi deildarinnar, þar á meðal 18 rúm fyrir sjúklinga, aðgerðarstofu, vaktherbergi, aðstöðu fyrir starfsfólk og skol, lín og tækjageymslu. Ljóst var strax í upphafi að plássið var lítið, en viðkvæðið var að litlir sjúklingar þyrftu lítið pláss. Kom þetta betur og betur í ljós þegar árin liðu og starfsemin jókst og að sama skapi varð tækjabúnaður meiri og flóknari.  Aðstaða fyrir foreldra var engin í upphafi, enda tíðkaðist ekki á þeim árum að foreldrar væru hjá börnum sínum á meðan þau dvöldu á sjúkrahúsi og litið var á foreldra sem gesti. Þrátt fyrir þetta var hugmyndafræði Vökudeildar frá upphafi sú að foreldrar voru hvattir til að koma og heimsækja börnin sín og mæður hvattar til brjóstagjafar ef heilsa barns leyfði. Eftir því sem húsnæði deildarinnar stækkaði á árunum 1987 til 1992 voru heimsóknarreglur rýmkaðar til muna og unnið markvisst í því að útrýma þeirri hugmynd að foreldrar væru gestir og þátttaka þeirra í umönnun barna sinna varð viðurkenndari.

Árið 2003 flutti Vökudeildin loksins í húsnæði sérhannað undir starfsemina á nýjum Barnaspítala og varð mikil breyting á allri aðstöðu. Enn er pláss fyrir foreldrar þó af skornum skammti og þess má geta að nú árið 2016 er ekki mögulegt fyrir foreldra veikra nýbura að dvelja allan sólarhringinn hjá barni sínu, þrátt fyrir að litið sé á fjölskyldu barnsins sem hluta af meðferðareiningunni og í raun gerð sú krafa að foreldrar séu allan sólarhringinn hjá barni sínu. Sú krafa er í samræmi við 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kemur fram að: „ aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla“.  Þetta er einnig í samræmi við lög  nr. 74/1997  um réttindi sjúklinga, og  yfirlýsta stefnu Kvenna- og barnasviðs LSH um samveru foreldrar og barns. Það er von starfsmanna að farið verði út í endurskipulagningu á núverandi húsnæði Barnaspítala Hringsins þar sem samvera foreldra og barna á Vökudeild verði höfð að leiðarljósi og húsnæði Vökudeildar stækkað.

Vökudeildin hefur alla tíð átt því láni að fagna að hafa á að skipa afbragðs starfsfólki. Margir starfsmenn hafa starfað við deildina í áraraðir þrátt fyrir oft á tíðum erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir oft mikla erfiðleika og sorg, þá hafa gleðistundirnar verið svo miklu fleiri. Að fá að taka þátt í gleði foreldra við fæðingu og síðan heimferð eftir langan og oft erfiðan tíma á Vökudeildinni er ómetanlegt. Við upprifjun þessa er ljóst að margt lánaðist okkur vel  og betur má ef duga skal, sérstaklega vegna þess hve örar breytingar eru innan heilbrigðiskerfisins. Dugnaður og velvilji starfsmanna Vökudeildar, ef til vill má einfaldlega segja þrautseigja og manngæska starfsmanna, var drifkrafturinn, svo og viljinn til að hjálpa bæði börnunum og foreldrum þeirra. Innilegar þakkir eru færðar litlu sjúklingunum, foreldrum þeirra  og fjölskyldum fyrir að fá að vera vitni að bæði smáum og stórum sigrum og fyrir að fá að vera þátttakandi í lífi þeirra  á örlagastundum . Bestu þakkir til allra þeirra fjölmörgu starfsmanna sem tekið hafa þátt í starfinu og þróun Vökudeildarinnar þessi 40 ár.




Skoðun

Sjá meira


×