Skoðun

Af launahækkunum dómara

Skúli Magnússon skrifar
Fréttablaðið fjallar enn á ný um launahækkanir dómara í gær, nú í forsíðufrétt undir þeim formerkjum að eftirlaun fyrrverandi dómara eða maka þeirra hafi hækkað verulega eða um 26%. Vísað er til framkvæmdastjóra LSR um að ekki sé dæmi um viðlíka hækkun hjá öðrum skjólstæðingum sjóðsins og þetta „standi verulega út úr“.

Í fréttinni er sett spurningarmerki við það hvernig forsendur í úrskurði kjararáðs 17. desember sl. eigi við um fyrrverandi dómara, eða maka látinna dómara, sem munu vera alls 29 að tölu. Líkt og í fyrri fréttaflutningi blaðsins er hér gefið í skyn að dómarar hafi fengið verulegar hækkanir umfram aðra.

Frá árinu 2009 höfðu laun dómara þróast þannig að þau samanstóðu að verulegu leyti af yfirvinnugreiðslum sem ákveðnar voru frá ári til árs. Þessi launagrunnur dómara var löngu orðinn óásættanlegur, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum viðmiðum um kjör dómara og sjálfstæði þeirra í starfi. Það var þó ekki fyrr en með umræddum úrskurði kjararáðs að þetta var lagfært að nokkru og laun dómara í auknum mæli skilgreind sem grunnlaun.

Frásagnir Fréttablaðsins af margra tuga launahækkun dómara voru þó úr lausu lofti gripnar – heildarlaun dómara hækkuðu um 8%. Var sú hækkun hófleg samanborið við þróun launa annarra sem heyra undir kjararáð svo ekki sé minnst á launaskrið á almennum vinnumarkaði.

Hækkun grunnlauna dómara leiddi til þess að eftirlaun þeirra sem fallla undir svonefnda eftirmannsreglu tóku í ríkara mæli mið af launum dómara í reynd, en á þessu hafði verið vaxandi misbrestur. Þessi breyting fól í sér sanngjarna og eðlilega leiðréttingu á eftirlaunum þessara dómara eða maka þeirra. Það er virðingarleysi við aðstæður og ævistarf þessa fólks að láta að því liggja að það hafi með úrskurði kjararáðs 17. desember sl. fengið óvenjulega eða óeðlilega hækkun eftirlauna sinna.


Tengdar fréttir

Dómarar fá tuga prósenta launahækkun

Störf dómara eiga sér ekki hliðstæðu á almennum vinnumarkaði. Tryggja verður sjálfstæði þeirra segir kjararáð. Kjör dómara eigi ávallt að vera meðal hinna bestu sem ríkisvaldið geti veitt. Hæstaréttardómarar hækka um 48 prósent

Fyrrverandi dómarar fá 26 prósent hækkun á eftirlaunum

Kjararáð hækkaði heildarlaun dómara sérstaklega umfram aðra í desember með vísan í aukið álag og nauðsyn þess að efla trúverðugleika dómstóla. Vegna þessa hækka eftirlaun 29 fyrrverandi dómara eða maka þeirra um 26 prósent.

Álagsgreiðslurnar voru orðnar hluti launanna

Ekki gefur rétta mynd af sérstakri endurskoðun kjararáðs á launum dómara í lok desember að horfa til launa þeirra fyrir breytingu án þess að taka tillit til álagsgreiðslna sem upphaflega áttu að vera tímabundnar.




Skoðun

Sjá meira


×