Skoðun

Þriðjudagsþrot

Hörður S. Óskarsson skrifar
Við erum stödd í höfuðstöðvum tæknigreina og sjáum þar metnaðarfullan raunvísindanema sitja í stofu 158. Rófubeinið hvílir á dúnamjúkum trébekk sem var hannaður og smíðaður af trésmiðnum Jósefi frá Nazareth. Staðsettur í miðjunni á stútfullum fyrirlestri er nemandinn kominn í bobba. Hann þarf að komast á klósettið og því standa til boða tveir kostir. Sá fyrri er að biðja samnemendur sína um að standa upp og fara fram á gang, sá seinni er að halda í sér og þrauka í gegnum svitatárin. Hann tekur þetta á sig, í þetta sinn, og heldur í sér út tímann. Biðin er óbærileg en með þolinmæðina að vopni tekst að komast í gegnum erfiðið.

Nemandinn er algjörlega búinn á því, þrefaldur tími í fyrirlestrarsal og ekkert hádegishlé. Bakið aumt og pokarnir undir augunum eðlisþyngri en möttull jarðar, en verst af öllu að hann náði ekki að kaupa sér kaffi því það var búið að lok lok og læsa sjoppunni. Mikill skellur því hann þarf að klára hópverkefnið fyrir miðnætti. Hann semur við sjálfan sig um að kaupa sér gosdrykk úr bilaða sjálfsalanum. Sem betur fer eru hinir í hópnum búnir að redda borði því lítið er um pláss fyrir hópavinnu eins og vanalega. Þau klára verkefnið með sóma rétt fyrir kvöldmat og því kemst hann úrvinda heim að fá sér smá í gogginn. En lærdómnum er hvergi nærri lokið því eins og vanalega á þriðjudögum þarf hann að lesa sig í gegnum efni vikunnar. Undir lokin er hann byrjaður að dotta og ákveður að segja þetta gott.

Hann er ekki lengi að svífa inn í heim draumanna og dreymir þar um háskóla sem telur lokapróf vera úrelt og ekki í takt við raunveruleikann í atvinnulífinu. Hann dreymir um háskóla sem setur nemendur og þeirra skoðanir í forgang, háskóla sem breytist með tímanum í stað þess að halda sér í fornöldinni, háskóla sem setur lýðræði stúdenta í fyrsta sæti. En nú er tíma drauma að ljúka og tími til kominn að Vaka.

Þessi grein er skrifuð sem hluti af greinaskriftaátaki Vöku í tilefni Stúdentaráðskosninga sem fara fram dagana 3. og 4. febrúar.




Skoðun

Sjá meira


×