Innlent

Ráðherra steypir fyrstu steypu vegna byggingar sjúkrahótels

Birgir Olgeirsson skrifar
Heilbrigðisráðherra lét hendur standa fram úr ermum í dag.
Heilbrigðisráðherra lét hendur standa fram úr ermum í dag. Vísir/NLSH
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, var við stjórnvölinn þegar ráðist var í fyrstu steypu vegna framkvæmda við byggingu nýs sjúkrahótels Landspítala við Hringbraut í dag.

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut.

Tölvuteiknuð mynd af hótelinu.
„Það er ánægjulegt að sjá hversu vel framkvæmdir ganga . Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Þessi fyrsti áfangi framkvæmda við sjúkrahótelið eru sannarlega ánægjulegar fréttir fyrir alla landsmenn,“ er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra í tilkynningu vegna málsins.

LNS Saga ehf. sér um byggingu sjúkrahótelsins. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017.  Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi.

Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOAN-hópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af Spítalahópnum. Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmanni.

Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang. Samningsfjárhæð er samkvæmt tilboði verktaka og samkvæmt ákvæðum útboðsgagna, kr. 1.833.863.753,- með vsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×