Skoðun

GoRed

Valgerður Hermannsdóttir skrifar
Hvað er það eiginlega,“ spurðu samstarfskonur mínar þegar ég sagði þeim að ég væri hluti af vinnuhópi sem væri að undirbúa GoRed-daginn. Þessar ágætu konur, sem hafa alla jafna svör við öllu sem ég spyr þær um, hvort sem það snýr að umönnun sjúklingahóps okkar, matargerð, prjónaskap eða heimsmálunum, stóðu á gati.

GoRed eru alheimssamtök sem hrint var af stað árið 2004 af Alþjóðahjartasambandinu. Hlutverk þeirra er að vinna að upplýsingasöfnun, rannsóknum og fræðslu um hjartasjúkdóma kvenna og forvarnir gegn þeim. Hér á landi er það Hjartavernd sem er heimili þessara samtaka, en auk þess standa Hjartaheill og Heilaheill að samtökunum og Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, er verndari átaksins. Frá árinu 2009 hefur GoRed-dagur verið haldinn árlega á Íslandi. Og nú hvetjum við alla til að fylgjast með viðburðum hjá GoRed í febrúar.

GoRed for Women var stofnað til að vekja fólk til vitundar um hjartasjúkdóma kvenna. Fram undir miðja tuttugustu öld var það svo til óþekkt að konur fengju hjartasjúkdóma en eftir árið 1950 fór að bera á sjúkdómnum hjá konum og jókst tíðni hans nokkuð hratt. Fram að því hafði einkennt sjúkdómssögu hjarta- og æðasjúkdóma að það voru karlmenn sem veiktust og því var þetta talinn karlasjúkdómur. Í beinu framhaldi af því var öll umræða um hjartveika menn og rannsóknir voru gerðar á hópi karlmanna.

Ólík einkennum karla

Sjúkdómseinkenni kvenna með hjartasjúkdóma eru oft ólík einkennum karla sem veldur því oft að konur koma seinna til læknis eða í meðferð. Samtökin vinna nú að rannsóknum þar sem meðal annars er lögð áhersla á að konur séu í rannsóknarhópi.

Það er einnig staðreynd að hjartasjúkdómar koma yfirleitt seinna fram hjá konum og er það að einhverju leyti vegna þess að á barneignartíma er það hormónastarfsemi hjá konum sem seinkar æðakölkun og á það einnig við í kransæðum. Líkami þeirra gengur þá í gegnum aldursbreytingar og við tíðahvörf minnka áhrif estrogenhormóns, sem meðal annars hefur gegnt því hlutverki að hafa mýkjandi áhrif á æðaveggi. Aðrar breytingar eins og hækkun blóðþrýstings, hækkun kólesteróls og hækkun þríglýseríða í blóði fylgja svo í kjölfarið.

Konur lýsa einkennum oft á annan hátt en karlmenn. „Lýsing á verkjum sem einkennandi eru fyrir hjarta- og æðasjúkdóma og koma fram jafnt hjá konum sem körlum: Þyngsli eða verkur fyrir brjósti eða fyrir neðan bringubein, óþægindi eða verkur milli herðablaða, í hálsi, kjálka eða maga. Verkur sem kemur við áreynslu og hverfur við hvíld og getur verið fyrirboði kransæðastíflu. Stöðugur verkur fyrir brjósti e.t.v. með ógleði og kald­svita sem getur verið einkenni um bráðakrans­æðastíflu og krefst tafarlausrar meðferðar. Yfirlið eða meðvitundarleysi.“[i] En konur lýsa stundum einkennum sem tengjast kransæðastíflu þannig að þær upplifa óútskýrðan slappleika eða þreytu, óeðlilegt kvíðakast eða verða taugaóstyrkar.

Ein helsta dánarorsök kvenna

Það er staðreynd að í dag eru hjarta- og æðasjúkdómar ein helsta dánarorsök kvenna og að með forvörnum má minnka líkurnar verulega. Eftir áralangar rannsóknir á áhættuþáttum hjartasjúkdóma hjá konum vitum við að:

Reykingar auka líkur á hjartasjúkdómum. Áhættan er því minni ef þú reykir ekki. Hreyfing er mikilvæg. Hálftími á hverjum degi gerir gæfumuninn og þá er einnig gott að finna sér þá hreyfingu sem manni finnst skemmtilegust til að auka líkurnar á að hún verði hluti af daglegri rútínu. Leggja þarf áherslu á hollt matarræði og fylgjast með ráðleggingum þar um til að halda kjörþyngd eða sem næst því. Gott getur verið fá aðstoð fagfólks við að hafa stjórn á mataræði en þyngdaraukning og fitusöfnun eru þættir sem nauðsynlegt er að fylgjast með. Þá er rétt að láta fylgjast reglubundið með heilsufari með því að mæla blóðþrýsting, kólesteról og blóðsykur. Þeir sem eru með ættarsögu um hjarta- og æðasjúkdóma eru í aukinni áhættu og ættu því að leggja enn ríkari áherslu á ofannefnd atriði.

Þá er gott að leita sér aðstoðar ef þú finnur fyrir þunglyndi en eftir tíðahvörf finna fleiri konur fyrir þunglyndi. Rannsóknir benda til að það auki áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Forðumst streitu en kynnum okkur þá áhættu sem við búum við með tilliti til sjúkdóma og vinnum í því á allan mögulegan hátt að lifa lífinu þannig að það auki lífsgæði okkar. Lífið er yndislegt. Verum jákvæð og verndum okkur sjálf með því að stuðla að heilbrigðum lífsvenjum okkar og þeirra sem okkur er annt um.

GoRed verður með viðburði næstu vikur til að kynna hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum og hvetjum við alla til að fylgjast með þeim og hlusta á okkar fólk.

[i]Tekið af upplýsingasíðu GoRed á Íslandi: http://www.hjarta.is/upplysingatorg/gored-fyrir-konur. Sótt 09.02.2016.




Skoðun

Sjá meira


×