Skoðun

Blekkjandi umfjöllun um sykurneyslu

Ragnheiður Héðinsdóttir og Bjarni Már Gylfason skrifar
Fjallað er um sykurneyslu Íslendinga í Fréttablaðinu 6. febrúar síðastliðinn. Þar er ýmsu haldið fram sem lítill fótur er fyrir. Í upphafi greinarinnar kemur fram að þjóðin þyngist og þyngist og að sykursýki hafi tvöfaldast á 50 árum en verið nokkurn veginn óþekkt fyrir 50 árum síðan. Ómögulegt er að halda því fram að þessi þróun sé sykurneyslu einni um að kenna og er umfjöllunin blekkjandi. Staðreyndin er sú að sykurneysla hefur dregist saman jafnt og þétt á síðari árum. Á árunum 1956-1960 var sykurneysla á mann 52,3 kg á en tæp 42 kg á ári árið 2014 samkvæmt fæðuframboðstölum Landlæknisembættisins. Sykurneysla hefur því ótvírætt dregist saman.

Samkvæmt sömu gögnum Landlæknis hefur neysla á sælgæti heldur dregist saman á síðustu 10 árum eftir að hafa aukist mikið eftir að innflutningur á sælgæti var gefinn frjáls eftir 1980. Sama má segja um heildarneyslu á gosdrykkjum sem hefur dregist lítillega saman á síðustu 15 árum en þess ber einnig að geta að inni í þeim tölum eru, auk sykraðra gosdrykkja, allir ósykraðir gos- og vatnsdrykkir.

Í umræddri grein er því haldið fram að gosdrykkjum megi kenna um helming af neyslu viðbætts sykurs í landinu. Þessi fullyrðing stenst ekki. Sykraðir gosdrykkir eru nú aðeins um 55% af heildarneyslunni eða rúmir 70 lítrar á mann en ósykraðir drykkir 45% eða sem svarar tæpum 60 lítrum á mann. Heildarneysla kolsýrðra drykkja er um 130 lítrar á mann á ári. Sykurhlutfall í sykruðum gosdrykkjum er um 11% sem þýðir að úr u.þ.b. 72 lítrum á hvert mannsbarn koma um 7,9 kg á ári úr gosdrykkjum sem er innan við 20% af heildarneyslu af viðbættum sykri.

Greininni í Fréttablaðinu var sýnilega ætlað að hneyksla og því er hið neikvæða málað sterkum litum. Mikið hefur áunnist í þeirri viðleitni að snúa lífsháttum til betri vegar á síðari árum. Því er nær að tala upp það sem vel er gert fremur en ala á æsifréttum um hið neikvæða. Í því samhengi má benda á að framboð gosdrykkja í litlum einingum hefur aukist mikið og að gríðarleg aukning hefur orðið á vatnsneyslu.

Markmiðið með þessum skrifum er engan veginn að mæla með óhófi af nokkru tagi heldur miklu fremur að benda á að þróunin er í rétta átt og því ber að fagna. Hin gullna regla næringarfræðinnar er í fullu gildi hér eftir sem hingað til, þ.e.a.s. að fjölbreytni í fæðuvali og hófsöm neysla er mun líklegri til árangurs en illa grundaðar fullyrðingar um skaðsemi einstakra fæðutegunda.




Skoðun

Sjá meira


×