Enski boltinn

Gunnleifur: Gylfi lætur mann líta út fyrir að vera í sjötta flokki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hélt áfram frábærri byrjun sinni á árinu 2016 í ensku úrvalsdeildinni með því að skora beint úr aukaspyrnu á móti Crystal Palace.

Því miður fyrir Swansea dugði það ekki til sigurs en liðið fékk þó stig og þokaðist fjær fallsvæðinu. Gylfi Þór er í miklum ham á nýju ári og er búinn að skora fimm mörk í sex leikjum í deildinni.

„Fyrir mér er Gylfi búinn að spila vel allt tímabilið en nú eru mörkin að koma og þá færðu miklu meiri athygli sem miðjumaður,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í Messunni á Stöð 2 Sport 2 HD á mánudagskvöldið.

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks og íslenska landsliðsins, hefur ótal sinnum æft með Gylfa og sagði frá því hvernig það er að standa í rammanum á móti þessum ótrúlega spyrnumanni á skotæfingum.

„Stundum líður manni rosalega vel á landsliðsæfingu, maður í góðum gír og fullur sjálfstraust. Svo ferðu á skotæfingu og maður er að verja frá nokkrum en svo mætir Gylfi og lætur mann líta út eins og maður sé í sjötta flokki,“ sagði Gunnleifur.

„Hann er algjörlega heimsklassa skotmaður. Honum lætur manni líða eins og maður eigi ekki séns. Markið er endalaust stórt þegar hann er að skjóta og maður er svo langt frá því oft að verja frá honum,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

Alla umræðuna og markið hans Gylfa um helgina má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Gylfi Þór valinn maður leiksins

Íslenski landsliðsmaðurinn var bestur í liði Swansea á móti West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Gylfi jafnaði fjórtán ára afrek Eiðs Smára

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði um helgina sitt fimmta deildarmark á árinu 2016 og varð aðeins annar íslenski leikmaðurinn sem nær að skora fimm mörk í fyrstu sex leikjum nýs árs í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi: Vonandi held ég áfram að skora

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið sjóðheitur upp við mark andstæðinganna að undanförnu og skorað fimm mörk í síðustu sex deildarleikjum Swansea City.

Draumadagar Íslendinganna

Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað í fimm af fyrstu sex deildarleikjum Swansea á nýju ári og Fréttablaðið skoðar í dag bestu daga íslenskra leikmanna í deildinni í gegnum tíðina. Þrír leikmenn eru í sérflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×