Viðskipti innlent

Segja frumvarp um sölu áfengis „meingallað“

Bjarki Ármannsson skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Félagið segist ekki geta stutt áfengisfrumvarpið að óbreyttu.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Félagið segist ekki geta stutt áfengisfrumvarpið að óbreyttu. Vísir
Félag atvinnurekenda (FA) telur áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna meingallað og segist ekki geta mælt með því að það verði að lögum. Þetta kemur fram í umsögn um frumvarpið sem félagið skilaði til Alþingis í gær.

Frumvarpið er nú lagt fram öðru sinni en Félag atvinnurekenda skilaði einnig umsögn um frumvarpið á síðasta þingi.

„Þær litlu breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu valda vonbrigðum,“ segir í umsögninni frá því í gær. „Vel rökstuddar og málefnalegar ábendingar FA og fleiri hagsmunasamtaka fyrirtækja eru að engu hafðar.“

Að mati FA gengur frumvarpið ekki alla leið í að aflétta hömlum á sölu og markaðssetningu áfengis, en í því er til dæmis gert ráð fyrir ólíkri meðhöndlun á sterku (yfir 22 prósent að styrkleika) og léttu áfengi og að áfengisauglýsingar séu áfram bannaðar.

„Félagið getur ekki mælt með því að frumvarpið verði að lögum óbreytt; það myndi að þarflausu skaða hagsmuni fjölda fyrirtækja í framleiðslu og innflutningi áfengis,“ segir í umsögn FA.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×