Skoðun

Eru svört föt verri en önnur föt?

Aðalheiður Snæbjarnardóttir skrifar
Hvað hugsar þú um þegar þú kaupir föt fyrir þig og fjölskylduna þína? Hvað þau kosta, hvernig þau nýtist, hvort þau muni endast, hvort Jói vaxi strax upp úr þessum buxum, hvort þetta pils sé ennþá í tísku?…? einhvers staðar í þessum hugsunum leynast mögulega aðrar vangaveltur: hver bjó þetta til, ætli þetta hafi verið framleitt af litlum börnum, ætli þetta hafi verið framleitt í Rana Plaza verksmiðjunni sem hrundi í Bangladess?

Þessar síðastnefndu hugsanir eru farnar að heyrast oftar og hærra. Talsmenn samfélagsábyrgðar hafa verið duglegir að vekja athygli á hryllilegum aðbúnaði starfsmanna, þrælahaldi bæði á fullorðnum og börnum, spillingu, umhverfismengun o.fl. Sem betur fer eru neytendur sífellt meðvitaðri um að þeir hafa bein áhrif á framleiðendur í gegnum neyslu sína.

Fataiðnaðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni, ekki síst vegna vatns­sóunar og eiturefnanotkunar við meðhöndlun og litun á fataefnum. Fáar iðngreinar nota jafn mikið vatn auk þess að eiturefni sem notuð eru við litunina berast með menguðu vatni út í vistkerfið í kringum verksmiðjurnar, í húð starfsmanna og í húð neytenda. Hættulegustu eiturefnin eru PPD sem finnst í mestu magni í svörtum fötum og NPE sem Evrópusambandið hefur bannað notkun á en fyrirfinnst samt í flestum fötum sem við kaupum. Það er vegna þess að efnin eru yfirleitt keypt inn frá löndum sem leyfir notkun NPE við litun á efni.

Sem betur fer þurfum við ekki að hætta alfarið að ganga í fötum af ótta við þessi eiturefni og önnur. Litaiðnaðurinn er að taka við sér og hefur náð árangri við minnkun vatnsnotkunar við litun efna og verið er að þróa leiðir til að lita efni án vatnsnotkunar með því að þrýsta litnum inn í efnið með miklum þrýstingi. Sú leið dugir þó aðeins á gerviefni en náttúruleg efni svo sem ull og bómull eyðileggjast við meðferðina. Einnig eru framleiðendur að skoða það að stíga aftur til fortíðar og lita efni eingöngu með náttúrulegum hráefnum.

Endanleg lausn er ennþá ekki í sjónmáli en við getum kallað eftir úrbótum í gegnum kaupvenjur okkar.




Skoðun

Sjá meira


×