Skoðun

Skeytingarleysi vinnumarkaðarins gagnvart fötluðu fólki

Bergur Þorri Benjamínsson skrifar
Það fór ekki framhjá undirrituðum þegar einum starfsmanni Landsbankans í Reykjanesbæ var sagt upp störfum. Starfsmaður þessi hafði unnið í bankanum í 30 ár og hann sinnti vinnu sinni vel og sýndi ríka þjónustulund. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum og almennri vitneskju var þessi starfsmaður í svipuðu starfi allan sinn feril hjá bankanum. Starfsmaðurinn afgreiddi m.a greiðslukort til viðskiptavina og sá um almenna upplýsingagjöf.

Það að hann hafi unnið í sama starfinu í 30 ár vekur hins vegar upp spurningar um hvort viðkomandi hafi ekki haft möguleika á að vinna sig upp í starfi. Var það vegna þess að viðkomandi er fatlaður?

Ekið var á viðkomandi fyrir nokkru síðan. Hann var vegna þessa frá vinnu í 5 mánuði og ekki leið á löngu frá því hann snéri aftur til vinnu þar til honum var sagt upp. Nú er það alltaf þannig að einhverjum er sagt upp. Fyrirtæki þurfa jú að sníða sér stakk eftir vexti. Það gleymist hins vegar algjörlega að þeim sem búa við skerta starfsorku er sagt upp fyrst þegar uppsagnir standa fyrir dyrum og fá síðast ráðningu, þegar búið er að leita logandi ljósi að starfskrafti. Oftar en ekki spilar þarna inn í að minnihluti starfa eru hlutastörf.

Nú er það hins vegar þannig að allir þurfa hlutverk í lífinu og ef það er ekki til staðar veslast fólk upp. Það snýr sólarhringnum við og þar fram eftir götunum. Í Þýskalandi hafa þarlend stjórnvöld tekið undir þetta sjónarmið. Þar í landi gildir m.a. að vinnustaðir þar sem 20 eða fleiri starfa þurfa að minnsta kosti 5% starfsmanna að vera fatlaðir. Gildir bæði um opinbera geirann og um einkageirann. Annars borga fyrirtæki sektir. Þar í landi hafa vinnuveitendur ríka ábyrgð gagnvart fötluðum starfsmönnum, þurfa þeir t.d. að sjá til þess að starfsmenn hafi möguleika til þess að vinna sig áfram innan fyrirtækisins. Þetta er gert undir merkjum samfélagslegrar ábyrgðar.

Betur má ef duga skal

Á Íslandi eru engin takmörk á því hversu skeytingarlaus vinnumarkaðurinn getur verið. Eftir hrunið var fatlað fólk látið fara í löngum röðum. Síðan þá hafa greiðslur úr almannatryggingakerfinu hækkað meðal annars vegna þessa. Með þessu er ég ekki að segja að fatlað fólk eigi að vernda á einhvern átt, en til að það standi jafnfætis þarf að bjóða upp á lausnir svo það sé mögulegt. Engum myndi detta í hug að hafa öll hús með tröppum, þess vegna eru settar lyftur svo allir hafi jafnt aðgengi að manngerðu húsnæði. Sama gildir um vinnumarkaðinn, það þarf að lyfta honum upp!

Mörg fyrirtæki hafa þó sýnt lit í þessum efnum og ráðið fatlað fólk, en betur má ef duga skal. Ríki og sveitarfélög eru fjármögnuð með skattfé frá okkur sem byggjum landið og við eigum kröfu á að þessir aðilar gangi á undan með góðu fordæmi. En gera þau það? Árið 2012 var meðal starfsmannafjöldi þeirra sem eru með fötlun hjá hverju ráðuneyti 1. Já þú last rétt, einn! Ergo, ríkið gengur á undan með góðu fordæmi eða hitt þó heldur. Á meðan gráta forsvarsmenn fjárveitingavaldsins yfir hækkandi útgjöldum til almannatrygginga. Þeim vorkenni ég ekki, fyrst þarf að breyta viðhorfum vinnumarkaðarins áður en þeirra tár verða þerruð.


Tengdar fréttir

Að vinna með atvinnulífinu en ekki gegn því

Samkeppniseftirlit hafa mikilvægu hlutverki að gegna í öllum þeim ríkjum sem líta á virka samkeppni sem helsta drifkraft atvinnulífsins. Þetta á við um öll ríki í okkar heimshluta, báðum megin Atlantsála, enda er samkeppnislöggjöf mjög þróuð í þeim ríkjum öllum,




Skoðun

Sjá meira


×