Erlent

Dómari í Brooklyn úrskurðar Apple í hag

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Talið er næsta víst að mál Apple gegn FBI muni enda fyrir hæstarétti.
Talið er næsta víst að mál Apple gegn FBI muni enda fyrir hæstarétti. vísir/epa
Dómari í Brooklyn úrskurðaði í dag að Apple væri ekki skylst að aflæsa síma manns sem handtekinn var í New York fyrir að selja eiturlyf. Talið er að niðurstaða dómarans geti haft talsverð áhrif í baráttu tæknirisans gegn bandarískum yfirvöldum í áþekkum málefnum. Bloomberg greinir frá.

Undanfarna mánuði hefur Apple hafnað beiðnum lögregluyfirvalda um að útbúa forrit til verksins. Í bréfi sem Tim Cook, forstjóri Apple, birti fyrr í mánuðinum, sagði hann að FBI væru að biðja fyrirtækið um að hakka sína eigin viðskiptavini og gera lítið úr þeim öryggisbúnaði sem fyrirtækið hefði skapað. Ef búnaðurinn yrði skapaður gæti það orðið skelfilegt ef hann myndi rata í rangar hendur.

Dómari í Los Angeles hafði komist að öndverðri niðurstöðu við þá sem James Orenstein, dómari í Brooklyn, komst að í dag. Sá taldi að Apple bæri að aðstoða yfirvöld við að aflæsa síma manns sem felldi fjórtán manns í skotárás í San Bernardino í byrjun desember.

Sjá einnig:Apple og FBI í hár saman vegna síma fjöldamorðingja

„Það væri absúrd að halda því fram að heimildin, sem stjórnvöld sækjast eftir í málu þessu, sé ekki í andstöðu við lögin,“ sagði Orenstein í fimmtíu síðna úrskurðinum. Taldi hann að kröfur stjórnvalda væru „óhóflegar“ og „óhagnýtar“.

Í gegnum tíðina hefur Apple aðstoðað stjórnvöld við að aflæsa minnst sjötíu símum en hætti samvinnu við yfirvöld á síðasta ári. Í bréfi Tim Cook, sem áður hefur verið nefnt, kemur fram að kröfur yfirvalda séu árás á friðhelgi einkalífs þeirra sem eiga vörur frá Apple.

Málið, sem niðurstaða fékkst í í dag, er eitt af tólf málum þar sem Apple hefur neitað að fara að tilmælum stjórnvalda. Talið er næsta víst að málin muni enda fyrir hæstarétti Bandaríkjanna og að niðurstaða hans muni hafa gífurleg áhrif í persónurétti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×