Erlent

Fangavörður játar að hafa hjálpað tveimur morðingjum að sleppa úr fangelsi

Birgir Olgeirsson skrifar
Gene Palmer hlaut sex mánaða dóm en hann átti yfir höfði sér sjö ára fangelsisvist.
Gene Palmer hlaut sex mánaða dóm en hann átti yfir höfði sér sjö ára fangelsisvist. Vísir/Getty
Bandarískur fangavörður hefur játað að hafa hjálpað tveimur morðingjum að sleppa úr fangelsi í Bandaríkjunum í júní í fyrra.

Fangavörðurinn heitir Gene Palmer en hann var í dag dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir að aðstoða við flótta þeirra Richard Matt og David Sweat. Fangarnir tveir brutust út úr Clinton-fangelsinu í New York-fylki og stóð leit að þeim yfir í þrjár vikur. Henni lauk eftir að Matt var skotinn til bana af lögreglumönnum og Sweat var handsamaður á ný. 

Bandaríska fréttastofan CNN segir frá því á vef sínum að Palmer útvegaði öðrum fanganum skrúfjárn og skrúflykil svo þeir notuðu við fangelsisflóttann. Palmer greindi frá því við yfirheyrslu að hann hefði einnig leiðbeint föngunum áður en hann tók við verkfærunum á ný rétt áður en vaktinni hans lauk.

Matt og Sweat notuðu verkfæri til að opna leið að göngubrú sem gerði þeim kleift að komast út úr fangelsinu.

Palmer átti yfir höfði sér sjö ára fangelsisvist en gegn játningu hlaut hann aðeins sex mánaða dóm og fimm þúsund dollara sekt, eða sem nemur 650 þúsund íslenskum krónum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×