Erlent

Írsk stjórnarkreppa í vændum?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talning gæti staðið yfir til morguns.
Talning gæti staðið yfir til morguns. vísir/getty
Flokkurinn Fianna Fáil, sem búist er við að verði sigurvegari írsku þingkosninganna eftir að lokaniðurstöður liggja fyrir, útilokar samstarf við Fine Gael, flokk forsætisráðherrans Enda Kenny. Í aðdraganda kosninganna var talið að slík samsteypustjórn yrði sú líklegasta til að geta myndað starfhæfan meirihluta og því ljóst að þetta mun flækja stjórnarmyndun enn frekar í Írlandi

Fianna Fáil, sem var stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fyrir kosningarnar, mun ekki heldur sækjast eftir samstarfi við Sinn Féin, sem mun að öllum líkindum hafa 14 til 15 prósent fylgi upp úr krafsinu. Sinn Féin, sem leiddur er af Gerry Adams,hefur aldrei notið viðlíka hylli í sögu flokksins en hann gæti endað með 20 þingmenn þegar öll atkvæði hafa verið talin.

Heimildir Guardian innan úr röðum Fianna Fáil, sem býst við því að tvöfalda þingmannafjölda sinn, herma að flokkurinn muni standast allan þrýsting um að fara í stjórn með hinum fornu fjendum úr Fine Gael.

Sjá einnig: Írska stjórnin fallin

Það yrði ekki síst vegna þess að Fianna Fáil treystir ekki Sinn Féin til að leiða stjórnarandstöðuna gegn flokki Enda Kenny – sem þarf þá að sækja stuðning sinni til óháðra og minni flokka.

Fine Gael fór inn í kosningarnar sem hluti af kosningabandalagi við verkamannaflokkinn en flokkarnir höfðu búið við sterkasta meirihluta í stjórnmálasögu Írlands. Flokkarnir virðast þó hafa beðið afhroð í kosningunum í gær. Eftir kosningarnar 2011 fengu Fine Gael 73 þingmenn og verkamannaflokkurinn 33. Í ár er búist við því að Fine Gael fái rétt rúmlega 50 og verkamannflokkurinn gæti hugsanlega náð tveggja stafa tölu.

Enda Kenny lýsti yfir ósigri í kosningunum í kvöld þrátt fyrir að enn ætti eftir að telja mikinn fjölda atkvæða. Búist er við því að talning geti staðið yfir fram á mánudag.


Tengdar fréttir

Írska stjórnin fallin

Enda Kenny, forsætisáðherra Írlands, hefur lýst yfir ósigri í kosningunum sem fram fóru í kvöld. Aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum eru taldar hafa ráðið úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×