Erlent

Friðurinn rofinn í Kabúl

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Kabúl, höfuðborg Afganistans.
Frá Kabúl, höfuðborg Afganistans. vísir/getty
Tvær aðskildar hryðjuverkaárásir urðu í það minnsta 27 að bana og særðu tugi manna í Afganistan í dag.

Fyrri árásin átti sér stað í morgun í Kunar-héraðinu í austurhluta landsins en þar sprengdi maður sig í loft upp við hlið manns sem leitt hafði andspyrnu íbúa héraðsins gegn Talíbönum. Alls létust 11 aðrir í sprengingunni og talið er að 36 hafi særst sömuleiðis.

Hin árásin átti sér stað nærri varnarmálaráðuneyti landsins í höfuðborginni Kabúl. Þar sprengdi maður sig við rútu á vegum afganska hersins. Fimmtán biðu bana, þar af 11 einstaklingar úr röðum hersins. Fjórir óbreyttir borgarar létu einnig lífið og 39 særðust.

Talíbanar hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Sprenginguna mátti heyra víða í Kabúl og þykkur reykur steig upp frá varnarmálaráðuneytinu. Þetta var fyrsta stóra sprengingin í Kabúl frá 1. febrúar en afganski herinn undirbýr sig nú fyrir árlegar árásir Talíbana. Alla jafna herðast átökin í mars og apríl þegar fjallvegir verða færir eftir að snjóa leysir.

Vonast er til að friðarumleitanir Afgana og Bandaríkjamanna við Talíbana í byrjun næsta mánaðar beri árangur. Munu þær fara fram í Islamabad í Pakistan en óttast er að Talíbanar blási til stórsóknar til að styrkja samningsstöðu sína í aðdraganda fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×