Enski boltinn

Klopp: Borgaði Gerrard til að tala fallega um mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool mætir Manchester City í úrslitaleik enska deildabikarsins um helgina og sló knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp á létta strengi á blaðamannafundi í dag.

Klopp getur þar með unnið sinn fyrsta bikar sem knattspyrnustjóri Liverpool en hann tók við félaginu í október.

Liverpool-goðsögnin Steven Gerrard er sannfærður um að Liverpool geti haft betur í leiknum á sunnudag og sagði í viðtali við Daily Telegraph að munurinn á milli liðanna fælist fyrst og fremst í því að Liverpool væri með Jürgen Klopp.

„Ég hugsa til baka til þessara úrslitaleikja sem ég vann sem leikmaður. Undirbúningur þjálfarans var gríðarlega mikilvægur,“ sagði Gerrard og sagði að hlutverk þeirra Gerrard Houllier, Phil Thompson og Rafael Benitez hafi skipt sköpum fyrir mikilvæga leiki.

„Ég lít nú á mitt gamla félag sem er undir stjórn Klopp og ég er sannfærður um að þeir hafa ráðið annan sigurvegara.“

Ummælin voru borin undir Klopp sem þakkaði kærlega fyrir sig. „Takk fyrir, Steve. Ég gaf honum 100 pund fyrir að segja þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×