Erlent

Forseti Keníu þjófkennir landa sína

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Uhuru Kenyatta forseti Keníu þykir umdeildur.
Uhuru Kenyatta forseti Keníu þykir umdeildur. Vísir/Getty
Keníumenn eru reyndir þjófar að sögn forseta ríkisins, Uhuru Kenyatta. Þessi orð lét hann falla í opinberri heimsókn sinni til Ísrael sem nú stendur yfir.

Kenyatta var ekki að spara stóru orðin er hann ávarpaði samlanda sína sem búa í Ísrael. Bætti hann því við að Keníumenn væru níðingar sem ýtti undir ættflokkasamfélag í landinu.

Samkvæmt frétt BBC um málið er talið að ummæli hans hafi verið ætluð til þess að hvetja Keníumenn til að þróa land sitt og segja skilið við spillingu.

Kenyatta er umdeildur og blaðamaður BBC í Keníu segir að margir trúi því að forsetanum sé ekki alvara með því að ætla að berjast gegn spillingu í landinu. Er kvartað undan því að ætterni ráði miklu um opinberar stöðuveitingar og að spilling og mútuþægni séu landlæg í stjórnsýslunni.

Forsetinn hefur verið sakaður um glæpi gegn mannkyni af Alþjóðaglæpamáladómstólnum fyrir að hafa stuðlað að þjóðernishreinsunum eftir kosningar í Keníu árið 2007.

Árið 2014 var málið látið niður falla þar sem saksóknari taldi sig ekki hafa nægar sannanir gegn honum. Kenyatta hefur ávallt neitað sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×