Innlent

Telur ekki að dómur Hæstaréttar hafi áhrif á Guðmundar-og Geirfinnsmálið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, telur ekki að dómur Hæstaréttar um að endurupptökunefnd sé andstæð stjórnarskrá muni hafa áhrif á það hvort Guðmundar-og Geirfinnsmálið verður tekið upp að nýju en beiðnir nokkurra sakborninga í málinu þess efnis er nú til meðferðar hjá nefndinni. Þar á meðal eru þau Erla Bolladóttir og Guðjón Skarphéðinsson en Ragnar er lögmaður þeirra.

 

Hann ræddi dóminn í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar sagði Ragnar að samkvæmt lögum hefði endurupptökunefnd um tvennt að velja ef hún telur að taka eigi upp mál að nýju.

„Annars vegar að fella þann dóm úr gildi eða að ákveða að málið skuli endurupptekið en að eldri dómur falli ekki úr gildi fyrr en nýr dómur er genginn. Nú er fyrri kosturinn úr sögunni samkvæmt þessum dómi Hæstaréttar og þá stendur eftir síðari kosturinn þannig að þetta skiptir ekki miklu máli að mínu viti,“ sagði Ragnar.

Hann sagði að þegar kæmi að Guðmundar-og Geirfinnsmálinu þá myndi endurupptökunefnd gæta þess að kveða ekki á um að fyrri dómar séu fellir úr gildi heldur segja að þeir standi þar til nýr dómur er genginn í Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar frá því í dag segir að ákvæði í sakamálalögum séu andstæð stjórnarskrá en að mati réttarins brýtur það gegn annarri málsgrein stjórnarskrárinnar að endurupptökunefnd, sem er hluti framkvæmdavaldsins, geti fellt dóma úr gildi.

Það sé andstætt þrískiptingu ríkisvaldsins þar sem einungis dómstólar geti ógilt fyrri dóm, eða eins og segir í annarri grein stjórnarskrárinnar:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“


Tengdar fréttir

Endurupptökunefnd andstæð stjórnarskrá

Ákvæði í sakamálalögum um endurupptökunefnd eru andstæð stjórnarskrá. Þetta kemur fram í niðurstöðu Hæstaréttar í máli karlmanns sem hafði óskað eftir endurupptöku vegna formgalla í meðferð sakamáls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×