Menning

Glöggt er gests augað

Magnús Guðmundsson skrifar
Katalónsk-spænski rithöfundurinn Jordi Pujolá býr og starfar á Íslandi.
Katalónsk-spænski rithöfundurinn Jordi Pujolá býr og starfar á Íslandi.
Saga katalónsk-spænska rithöfundarins Jordi Pujolá er um margt óvenjuleg. Í dag kl. 16.30 til 17.30 ætlar hann að vera á Kaffislipp á Hótel Marina og segja sögu sína og frá fyrstu bók sinni Necesitamos un cambio. El sueno de Islandia eða Við þurfum breytingu. Íslenski draumurinn.

„Ég ætla að tala um efni bókarinnar og aðalpersónuna en svo líka þá breytingu sem ég gerði á mínu lífi þegar ég flutti til Íslands á sínum tíma. Á Spáni var ég að vinna á fasteignasölu og var á mjög góðum launum en mín innri rödd sagði mér að ég þyrfti að vera að gera það sem mig langaði raunverulega til þess að gera sem var að skrifa. Það var minn draumur.

Dag einn ákvað ég að hætta í vinnunni, selja íbúðina í Barcelona og fína bílinn sem ég átti og svo naut ég þeirra forréttinda að vera kvæntur íslenskri konu. En ég var ekki búinn að segja henni frá þessu uppátæki mínu því við vorum alltaf búin að gera ráð fyrir því að búa áfram í Barcelona og ala upp börnin okkar þar. Þegar ég sagði henni frá þessu þá varð hún afar glöð og við ákváðum að láta verða af þessu. Það var óneitanlega mikil óvissa fólgin í þessu og fólkið sem kalla má nei-ara var mikið á móti þessu en við létum það ekki stoppa okkur.

Núna búum við hér og ég er að læra íslensku og skrifa þannig að ég skila nú ekki miklum tekjum til heimilisins en á reyndar enn hlut í fyrirtækinu á Spáni. En það er ekki frábrugðið aðalpersónu bókarinnar sem á það líka sameiginlegt með mér að Gandhi er mikil fyrirmynd í lífinu. Gandhi sagði einmitt: Ef þú vilt breytingar þá skaltu byrja á sjálfum þér. Og það er grunnurinn að þessum breytingum sem ég gerði á lífi mínu. Aðalpersóna bókarinnar fer hins vegar þá leið að fara út í pólitík til þess að ná fram breytingum í lífi sínu og á sínu samfélagi en ég valdi ritstörfin.“

Fyrsta bók Jordi kom út í fyrra og hann vinnur nú að því að ljúka þeirri næstu og segir að þar verði enn sterkari tenging við Ísland. „Titill næstu bókar er Barþjónninn í Reykjavík og ég er nokkuð viss um að hún verði þýdd á íslensku sem skiptir mig auðvitað miklu máli. Þar segir frá lögfræðingi sem kemur frá Spáni og er eins og ég í því ferli að breyta lífi sínu. Ég vona að þetta verði áhugavert fyrir bæði þá sem lesa spænsku og ekki síður Íslendinga. Glöggt er gests augað er að því er mér er sagt vinsælt spakmæli á Íslandi og ég lærði það reyndar af sjálfum borgarstjóranum í Reykjavík. En ég er þó fyrst og fremst ánægður með að hafa látið verða af því að breyta lífi mínu enda er ég afskaplega hamingjusamur og ánægður á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.