Viðskipti innlent

Hagnaður Arion 49 milljarðar í fyrra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagnaður Arion banka í fyrra var verulegur.
Hagnaður Arion banka í fyrra var verulegur.
Hagnaður Arion banka eftir skatta á árinu 2015 nam 49 milljörðum króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að afkoma bankans beri þess merki að til lykta voru leidd nokkur umfangsmikil úrlausnarmál sem vörðuðu mikla hagsmuni fyrir bankann.

Fyrst og fremst er um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum: Reitum fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd. Öll voru félögin skráð í kauphöll hér á landi eða erlendis, nema eignarhluturinn í Bakkavor Group sem var seldur í kjölfar söluferlis í umsjón Barclays bankans. Þannig nam hagnaður Arion banka á árinu 2015 49,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 28,7 milljarða króna á árinu 2014.

Arðsemi eigin fjár var 28,1% samanborið við 18,6% árið 2014. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 10,4% á árinu samanborið við 10,7% árið 2014. Heildareignir námu í árslok 2015 1.011,0 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20% milli ára.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 24,3 milljörðum króna og eykst verulega milli ára. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til virðishækkunarinnar á eignarhluta í Bakkavor Group Ltd.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×