Viðskipti innlent

Ragnheiður spyr hver ætli að axla ábyrgð á Aserta-málinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Ragnheiður gerði Aserta-málið umdeilda að umtalsefni sínu á þingi í dag.
Ragnheiður gerði Aserta-málið umdeilda að umtalsefni sínu á þingi í dag. Vísir/GVA
„Hver ætlar að axla ábyrgð á málatilbúnaði af þessu tagi? Er það Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkissaksóknari? Eða hver ætlar að axla ábyrgð og sýna borgurum í landinu að svona er ekki farið með fólk?“

Svo spurði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og barði í borðið undir lok umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag. Ragnheiður vísaði þar til Aserta-málsins svokallaða, en á mánudag var greint frá þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að falla frá áfrýjun þess umdeilda máls.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans blésu til blaðamannafundar hinn 29. janúar 2010 þar sem greint var frá því að fjórir Íslendingar væru grunaðir um brot á gjaldeyrislögum vegna viðskipta sænska félagsins Aserta AB. Eftir fimm ár í réttarkerfinu voru sakborningarnir málinu sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra og tók ríkissaksóknari strax ákvörðun um áfrýjun dómsins til Hæstaréttar. Það var svo fyrir helgi sem fallið var frá áfrýjun málsins.

Einn verjandi í málinu sagði í gær að augljóst væri að ríkissaksóknari hafi áfrýjað að mjög vanhugsuðu máli og haldið lífi í málinu að tilefnislausu. Ragnheiður sagði málareksturinn hafa kostað mennina bæði mannorðið og fjármuni þann tíma sem það var rekið.

„Virðulegur forseti, nú hafa fjórir ungir menn setið undir því í sex ár að ákveðið var að höfða mál á hendur þeim á grundvelli reglna um gjaldeyrismál sem höfðu ekki lögsamþykki ráðherra,“ sagði Ragnheiður meðal annars í ræðu sinni. „Þeir eru nafngreindir fyrir sex árum og nú er málinu vísað frá eftir að þeir höfðu verið sýknaðir í héraðsdómi. Það er algjörlega ljóst að í þessu máli var farið rangt af stað og réttur brotinn á einstaklingum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×