Erlent

Sjáðu hlátrasköllin eftir illkvittið grín á kostnað Corbyn

Bjarki Ármannsson skrifar
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, átti sennilega ekki von á því að ræða hans á breska þinginu í dag um kosti þess fyrir Bretland að vera áfram í Evrópusambandinu myndi vart heyrast fyrir hlátri. En þannig fór nú samt eftir að þingmaður Íhaldsflokksins sló í gegn meðal samflokksmanna sinna með framíkalli á meðan ræðu Corbyn stóð.

Illkvittið grín þingmannsins Christopher Pincher, og hávær hlátrasköllin sem fylgdu í kjölfarið, má sjá í myndbandinu efst í þessari frétt.

Neðri deild breska þingins er talsvert ærslafyllri en hið íslenska Alþingi og mikið um hávær hróp og köll. Þá er Corbyn í meira lagi óvinsæll meðal þingmanna Íhaldsflokksins og ætti það því ef til vill ekki að koma á óvart að Pincher hafi nýtt sér hik í máli flokksformannsins til að skjóta inn brandara sínum.

„Í síðustu viku var ég í Brussel,“ sagði Corbyn í ræðu sinni. „Þar var ég að hitta leiðtoga Evrópuríkja og formenn evrópskra félagshyggjuflokka. Og einn þeirra sagði við mig ...“

„Hver ert þú?“ gall þá í Pincher og þingsalurinn sprakk nánast samstundis úr hlátri.

Líkt og sést í myndbandinu, átti Corbyn erfitt með að komast að eftir þetta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×