Erlent

Karlmenn ættu að varast að geyma símann nálægt pungnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karlmenn ættu helst ekki að geyma farsímann í rassvasanum, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar.
Karlmenn ættu helst ekki að geyma farsímann í rassvasanum, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar. vísir/getty
Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var á sæði karlmanna sýna að það að hafa farsímann í vasanum nálægt pungnum getur haft áhrif á fjölda og hreyfanleika sæðisfruma og þar af leiðandi jafnvel leitt til ófrjósemi. Er talið að hitinn frá símanum hafi skaðleg áhrif á sæðið og því nær sem hann er eistunum því verra.

Fjallað er um niðurstöður rannsóknarinnar á vef breska blaðsins Telegraph. Vísindamennirnir rannsökuðu meira en 100 karlmenn í heilt ár. Það að geyma farsímann í vasa nálægt pungnum hafði áhrif á fjölda og hreyfanleika sæðisfruma hjá 47 prósent mannanna.

„Við rannsökuðum hversu mikið var af sæði og hversu mikil gæði voru í því og komumst að því að það hafði minnkað. Við teljum að þetta sé vegna samspils þess að sæðisfrumurnar hitna vegna farsímans í vasanum og einnig vegna rafsegulbylgna sem stafa frá honum,“ segir Martha Dirnfeld, prófessor við Technion-háskólann í Haifa.

Arnar Hauksson, læknir, ræddi niðurstöðurnar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann sagði þær sýna að karlmenn ættu klárlega ekki að ganga með símann í vasanum. Skýr tengsl væru á milli þess að vera með símann í vasanum og minnkandi gæða sæðisfruma samkvæmt rannsókninni.

„Minnkunin er það mikil, hún er alveg klár, það er ekki spurning um að hún sé ekki rétt reiknuð,“ sagði Arnar en hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×