Erlent

Enn reynir Obama að loka Guantanamo

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama ætlar að gera úrslitatilraun til að fá Bandaríkjaþing til að fallast á lokun fangabúðanna umdeildu.
Barack Obama ætlar að gera úrslitatilraun til að fá Bandaríkjaþing til að fallast á lokun fangabúðanna umdeildu. Nordicphotos/AFP
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna kynnti í gær áætlun um lokun Guantanamo-fangabúðanna á Kúbu. Ekkert er þó beinlínis nýtt í áætluninni.

Lokun búðanna var eitt fyrsta loforðið, sem Barack Obama ætlaði að efna eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir rúmlega sjö árum.

Andstaða þingsins við lokunina hefur hins vegar orðið til þess, að enn er þar hafður í haldi 91 fangi. Enginn þeirra hefur hlotið dóm, þrátt fyrir að hafa setið í fimmtán ár í fangabúðunum. Alls hafa 34 þeirra fengið úrskurð um að óhætt sé að láta þá lausa.

„Í mörg ár hefur það legið ljóst fyrir að fangabúðirnar við Guantanamo-flóa styrkja ekki öryggi okkar,“ sagði Barack Obama forseti á blaðamannafundi í gær. „Þær grafa undan því.“

Frá upphafi hafa 779 manns verið hafðir í haldi í Guantanamo. Margir þeirra hafa mátt sæta alvarlegum pyntingum af hálfu bandarískra leyniþjónustumanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×