Innlent

Friðlýsing Kerlingarfjalla komin á skrið í umhverfisráðuneytinu

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar eru á svæðinu.
Fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar eru á svæðinu. Vísir/vilhelm
Undirbúningur að friðlýsingu Kerlingarfjalla er hafinn. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sett vinnuna af stað og fundað hefur verið með heimamönnum í Hrunamannahreppi.

Í frétt ráðuneytisins kemur fram að skýr vilji af hálfu heimamanna hafi komið fram á undirbúningsfundinum og því virðist ekkert til fyrirstöðu að friðlýsingin geti gengið fljótt fyrir sig.

Kerlingarfjöll eru vel afmarkaður fjallaklasi á hálendinu þar sem eru jafnframt fjögur svæði í verndarflokki rammaáætlunar.

Kerlingarfjallasvæðið nýtur vaxandi vinsælda fyrir hvers konar útivist. Áður var þar vinsælt skíðasvæði en nú heimsækja gestir svæðið fyrst og fremst til útivistar þar sem víðerni og háhitasvæði eru helsta aðdráttarafl svæðisins. Í Kerlingarfjöllum er jafnframt vaxandi ferðaþjónusta.

Við undirbúning að friðlýsingu svæðisins er ætlunin að stuðla að því að starfsemi innan þess verði sem mest sjálfbær. Gert er ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu haldi áfram að aukast á komandi árum, en með friðlýsingunni er ætlunin að setja tímanlega reglur og skipulag fyrir svæðið og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni, segir í frétt ráðuneytisins.

Við undirbúning friðlýsingarinnar verður haft samráð við hagsmunaaðila, m.a. rekstraraðila sem starfa innan þess svæðis sem fyrirhugað er að friðlýsa. Hefur Umhverfisstofnun skipað samstarfshóp með fulltrúum Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Vina Kerlingarfjalla og hefur verið boðað til fyrsta fundar hópsins í vikunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×