Viðskipti innlent

Aserta-málið: „Framlengt um 14 mánuði algjörlega að óþörfu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðalmeðferð málsins í nóvember 2014.
Frá aðalmeðferð málsins í nóvember 2014. vísir/gva
Arnar Þór Stefánsson, verjandi Ólafs Sigmundssonar sem var einn af ákærðu í Aserta-málinu svokallaða, segir það greinilegt að áfrýjun ríkissaksóknara á sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness til Hæstaréttar hafi verið vanhugsuð en fallið var frá áfrýjuninni fyrir helgi.

 

„Ég hef ekki hugmynd um af hverju fallið er frá áfrýjun en geri bara ráð fyrir því að þegar ríkissaksóknari fór að undirbúa málið fyrir Hæstarétt þá hafi hann séð að hann var ekki með neitt mál. Þetta var vanhugsuð áfrýjun því dómur féll í héraði í desember 2014 þannig að nú eru liðnir þá 14 mánuðir og það hefur ekkert gerst. Það er eins og ríkissaksóknari hafi fyrst núna gluggað í skjöl málsins og séð að dómur héraðsdóms var hárréttur en með þessu var málið framlengt um 14 mánuði algjörlega að óþörfu,“ segir Arnar Þór í samtali við Vísi.

Ber vott um ómarkviss vinnubrögð

Hann segir þetta bera vott um ómarkviss vinnubrögð sem eigi ekki að viðgangast hjá ríkissaksóknara.

 

„Ríkissaksóknari verður auðvitað að ígrunda mál gaumgæfilega þegar hann tekur svona stóra ákvörðun eins og að áfrýja máli til Hæstaréttar og framlengja þannig líf málsins, í þessu tilfelli að þarf-og tilefnislausu um 14 mánuði,“ segir Arnar Þór.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en blásið var til blaðamannafundar vegna þess í janúar 2010 þegar greint var frá umfangsmiklum rannsóknum efnahagsbrotadeildar lögreglu í samvinnu við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Húsleit var gerð á fjórum heimilum og einni starfstöð. Nokkur hundruð milljónir voru kyrrsettar.

Voru fjórir menn, þeir Ólafur, Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson og Markús Máni Michaelsson Maute, ákærðir fyrir stórfelld brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti. Áttu þeir að hafa nýtt sér tvöfalt gengi íslensku krónunnar og farið þannig á svig við gjaldeyrishöftin. Þeir neituðu alltaf sök.

Telur augljóst að ríkissjóður beri bótaábyrgð vegna málsins

Nú sex árum síðar er málinu endanlega lokið þar sem það fer ekki fyrir Hæstarétt. Arnar Þór segir að aldrei hafi átt að fara af stað með málið í upphafi.

„Menn áttu bara að sjá það á fyrstu metrunum að það var ekkert mál, engar sakargiftir, engin refsiverð háttsemi. Það átti einfaldlega ekki að fara af stað. Síðan átti að bremsa málið af áður en var gefin út ákæra, það átti ekki að gefa út ákæru og svo í allra síðasta lagi áttu menn að stoppa eftir héraðsdóminn og áfrýja ekki. Þannig að á öllum póstum voru teknar rangar ákvarðanir.“

Aðspurður hvort skjólstæðingur hans muni sækja sér skaðabætur vegna málsins segir hann að það verði metið í framhaldinu en það sé augljóst að ríkissjóður beri bótaábyrgð vegna fjártjóns og miska sem það hefur valdið fjórmenningunum sem voru ákærðir. 


Tengdar fréttir

Aserta-málið verður tekið efnislega fyrir

Hæstiréttur sneri í dag við frávísun Héraðsdóms Reykjaness í Aserta-málinu svokallaða þar sem Karli Löve Jóhannssyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelssyni Maute og Ólafi Sigmundssyni er gefið að sök að hafa brotið gjaldeyrislög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×