Enski boltinn

Sky Sports: Mourinho á leið til Manchester

Anton Ingi Leifsson skrifar
Er Mourinho hissa á þessu?
Er Mourinho hissa á þessu? vísir/getty
Jose Mourinho, fyrrverandi stjóri Chelsea og fleiri stórliða, mun taka við af Louis van Gaal sem stjóri Manchester United ef marka má frétt Sky Sports í dag. Þetta hefur Sky eftir ráðgjafa Inter Milan.

Mourinho hefur undanfarna daga verið á Ítalíu þar sem hann hefur heimsótt Moratti fjölskylduna, sem stýrir Inter Milan, en Mourinho starfaði með henni þegar hann var þjálfari Inter á sínum tíma.

Þá fóru sögusagnir af stað um að Mourinho væri á leið að taka við Inter, en Bedy Moratti, systir fyrrum forseta Inter, Massimo Moratti, sagði:

„Við söknum hans persónu, en hann er ánægður - hann er að fara til Manchester,” sagði Bedy í samtali við fjölmiðla.

United er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en liðið tapaði á vandræðalegan hátt gegn Midtjylland í Evrópudeildinni í vikunni sem gerir stjórasæti Van Gaal enn heitara fyrir vikið.

Alveg frá upphafi ársins hefur verið orðrómur um að sá portúgalski, Mourinho, sé á leið til United, en Guillem Balague, sparkspekingur Sky Sports, segir að það sé enginn samningur í höfn milli United og Mourinho.

Mourinho sá Inter spila við Sampdoria í gær og var svo spurður hvort hann væri að taka við Inter á næstunni, en hann gaf lítið fyrir þær fréttir.

„Ég hef ekki komið til Milan lengi, fyrir utan Meistaradeildarleikina með Real 2010 og hef ekki séð Moratti fjölskylduna svo þetta er frábær tilfinning,” sagði Mourinho í samtali við Gazzetta World.

„Ég er Interisti, en ég endurtek, ég vil ekki neinar sögusagnir. Ég mun ekki verða stjóri Inter á næsta tímabili og þeir hafa ekki spurt mig um að verða það. Kannski í framtíðinni, afhverju ekki? Ég fór aftur til Chelsea þar sem ég hafði þjálfað áður.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×