Erlent

Sænskur læknir missir réttindin fyrir að bjóða sjúklingum endaþarmsnudd gegn bakverkjum

Atli Ísleifsson skrifar
Jan Mikael Nordfors hefur starfað í Svíþjóð, Danmörku og Noregi síðastliðin tuttugu ár.
Jan Mikael Nordfors hefur starfað í Svíþjóð, Danmörku og Noregi síðastliðin tuttugu ár. Vísir/Getty/Skjáskot af VG
Sænski læknirinn Jan Mikael Nordfors hefur margoft verið rekinn úr starfi fyrir að hafa stungið fingrum sínum í endaþarm sjúklinga sinna, að hans sögn til að lina bakverki, og nú er svo komið að hann hefur misst starfsréttindi sín bæði í Svíþjóð  og Danmörku.

Í frétt Verdens Gang segir að mál Nordfors hafi vakið mikla athygli í Noregi árið 2005 þegar ljóst var að honum hafði verið vikið úr starfi í Sogni og Firðafylki og Finnmörku eftir að hafa boðið fjölda sjúklinga endaþarmsnudd sem lækningu við bakverkjum. Ári síðar var honum einnig vikið úr starfi í sveitarfélaginu Verran í Norður-Þrændalögum.

Nordfors hefur áður sagt við VG að um nornaveiðar sé að ræða. „Mér finnst bara ekkert gott að pota í rassinn á fólki. Punktur. Ég geri þetta til að fólki líði betur.“

Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa nú ákveðið að svipta lækninum réttindum sínum, en áður höfðu dönsk yfirvöld gert slíkt hið sama eftir að hann gerðist sekur um vanrækslu í starfi sem stofnaði lífi sjúklings á læknastofu fyrir utan Kaupmannahöfn í hættu. Að sögn DR átti Nordfors að gefa sjúklingnum deyfingu en stakk þess í stað gat á öðru lunga hans. Í frétt DR má einnig sjá hvar læknirinn hefur starfað á Norðurlöndum síðustu tuttugu árin.

Norskir fjölmiðlar hafa reynt að ná tali af Nordfors í dag en án árangurs. Lögmaður hans vildi ekki tjá sig um málið við NRK. Á Facebook-síðu sinni hefur Nordfors hins vegar sagst vera að íhuga að stefna dönskum yfirvöldum sem hann segir hafa eyðilagt starfsferil hans þar sem hann hafi verið sakaður um að vera alkóhólisti, veikur á geði og að misnota eiturlyf.

Norsk yfirvöld gáfu lækninum viðvörun árið 2005 eftir að bent var á röð atvika þar sem Nordfors hafi gerst sekur um margvísleg brot í starfi. Þannig á hann að hafa beðið aðstandenda nýlátins sjúklings um að segja sænska brandara til að „létta á stemningunni“ og farið að hlæja þegar kvensjúklingur fór úr að ofan við skoðun, auk þess að hafa boðið fjölda sjúklinga upp á endaþarmsnudd gegn bakverkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×