Erlent

Kalla eftir lokun umdeildrar mosku

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bilal Ismail.
Abu Bilal Ismail.
Danska sjónvarpsstöðin TV2 birti á dögunum heimildaþátt um samfélag múslima í Danmörku. Þátturinn hefur valdið miklum usla. Imam Grimhøj moskunnar segir í þættinum að grýta eigi konur sem haldi fram hjá til dauða. Abu Bilal Ismail segir einnig að þeir sem segi skilið við trú sína eigi að vera drepnir.

Falin myndavél var notuð til að taka upp ummælin, sem sjá már hér. Texti myndbandsins er á dönsku.

Þá hefur TV2 einnig birt myndband af því þegar Ismail kallar eftir því að börn sem biðji ekki til guðs verði barin.

Þetta er fjarri frá því að vera í fyrsta sinn sem að deilur koma upp varðandi moskuna. Í júlí 2014 kallaði Ismail eftir því að guð dræpi alla gyðinga. Þá lýstu forsvarsmenn moskunnar yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki. Þrátt fyrir mikla reiði Dana vegna yfirlýsingarinnar steig formaður stjórnar moskunnar fram skömmu seinna og sagðist vilja íslamskt ríki um heim allan.

Lögreglan í Danmörku telur að um 24 danskir ríkisborgarar sem hafi flust til Sýrlands og Írak og barist þar fyrir vígahópa hafi sótt moskuna.

Nokkrum sinnum hefur verið reynt að loka moskunni, en eftir að TV2 birti fyrri hluta heimildaþáttar um moskuna hafa fjölmargir kallað aftur eftir lokun hennar. Þar á meðal eru stjórnmálamenn sem hafa kallað eftir því að forsvarsmenn moskunnar verði sendir úr landi.

Í kjölfar umfjöllunar TV2 hafa yfirvöld Árósa dregið stuðning sinn við byggingu nýrrar mosku til baka. Þá kom í ljós að forsvarsmenn moskunnar höfðu stofnað sérstakt sjaría-ráð. Meðlimir ráðsins tóku ákvarðanir varðandi málefni múslima í samfélagi þeirra með tilliti til islamskra laga. Þar á meðal ákváðu þeir hvort að hjón hefðu leyfi til að skilja.

Ráðið hefur nú verið leyst upp „af virðingu við dönsk gildi“, eins og fram kom í yfirlýsingu frá moskunni.

Fyrri partur heimildaþáttanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×