Viðskipti innlent

Mesta friðsældin í Bláa lóninu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjáskot úr febrúarútgáfu EasyJet blaðsins.
Skjáskot úr febrúarútgáfu EasyJet blaðsins.
Hayley Doyle, breskur ferðamaður sem sótti Ísland heim á dögunum, varð hlutskörpust í myndasamkeppni EasyJet í febrúar. Verðlaunamyndinina tók kærastinn hennar af Doyle í Bláa lóninu en þemað þennan mánuðinn var friðsæld.

Fjallað er um myndina í innblaði EasyJet þar sem fram kemur að Doyle hafi ekki vitað að kærastinn var að taka af henni mynd. Hún hafi verið „orðlaus“ þar sem hún virti fyrir sér snjóinn í fjöllunum og þurft að klípa sjálfa sig til að átta sig á því að ekki var um draum að ræða.

„Heiðskír himinn, léttur andvari, mikill kuldi“ voru veðurskilyrðin þennan daginn að sögn Doyle sem kunni vel að meta heimsóknina í lónið. Þar horfðu þau á sólina setjast og gátu ekki haft augun af því.

Þá fögnuðu þau mjög barnum í lóninu en parið var á ferðalagi á Íslandi í tilefni afmælis kærasta hennar. Um mánaðarlega samkeppni er að ræða hjá EasyJet þar sem myndirnar þurfa að vera teknar á áfangastöðum flugfélagsins.

Vísir fjallaði í gær um harða gagnrýni sem Bláa lónið fékk frá ferðabloggurunum Jaqueline og Shannon sem sögðu lónið eyða peningunum þínum, tíma og sál.

Aðsókn í lónið hefur verið afar mikil undanfarin misseri, svo mikil að ástæða þykir til að bóka tíma á netinu fyrir fram.


Tengdar fréttir

Þúsundir koma í heimsókn í gestastofurnar

Gestakomur í nokkrar af helstu gestastofum íslenskra orkufyrirtækja voru um 113.000 árið 2014. Þar af voru um 94.000 sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×