Erlent

Höfuðpaur barnaklámssíðu fékk þungan dóm

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Nota þurfti sérstaka vafra til þess að finna síðurnar. Myndin er sviðsett.
Nota þurfti sérstaka vafra til þess að finna síðurnar. Myndin er sviðsett. Visir/Getty
Á föstudag var 48 ára karlmaður  í Danmörku dæmdur í sex ára fangelsi í einu stærsta barnaklámsmáli sem upp hefur komið í landinu. Maðurinn, sem var frá bænum Randers á Jótlandi, beitti tvö börn kynferðislegu ofbeldi á tveggja ára tímabili.

Málið hefur þó vakið sérstaka athygli í Danmörku þar sem maðurinn hafði játað að hafa haldið uppi heimasíðunni Hoarders Hell sem var sérstaklega hönnuð til þess að laða að og virkja barnaníðinga til þess að deila efni.

Síðuna er erfitt að finna á netinu á hefðbundnum vöfrum og til þess að fá aðgang að henni var skylda að hlaða inn nýju efni. Um 18 þúsund manns höfðu sótt um að fá aðgang að síðunni en aðeins þeir sem gátu sýnt fram á að efnið sem þeir sendu inn væri annað hvort þeirra eigin framleiðsla eða áður óséð fengu aðgang. Tveir aðrir menn voru handteknir vegna vefsins árið 2014, einn í Ástralíu og hinn í Hollandi.

Á tölvum Danans fundust 3696 ljósmyndir og 116 myndskeið af barnaklámi. Maðurinn var einnig einn af stjórnendum síðunnar The Love Zone sem hefur orðið þekkt fyrir að vera nýtt af barnaníðingum til samskipta.

Einnig var danski maðurinn sakaður um áform um að kaupa barn í Rúmeníu árið 2010. Sú kæra var byggð upp af samskiptum er hann hafði átt á netinu en Daninn neitaði þeirri sök með þeim rökum að þar hefði aðeins verið um spaug að ræða. Lögreglan hafði þó undir höndum samskipti þar sem maðurinn útlistaði áformum sínum um að ferðast með barnið til móts við aðra barnaníðinga í Svíþjóð gagngert til þess að framleiða barnaklám.

Nánar er fjallað um málið í dönskum miðlum.

Uppfært 18.00: Í fyrstu útgáfu þessarar fréttar var ranglega fullyrt að maðurinn hefði hlotið 35 ára fangelsisdóm. Hið rétta er að dómurinn hljóðaði upp á sex ár en maður sem handtekinn var í Ástralíu vegna vefsíðunnar Hoarders Hell hlaut 35 ára dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×