Enski boltinn

Norðurlandaþjóðirnar vilja halda saman Evrópumótið í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna sæti á EM 2016.
Íslensku strákarnir fagna sæti á EM 2016. Vísir/Vilhelm
Stjórn danska knattspyrnusambandsins hefur tekið ákvörðun um að kanna möguleikann á því að Norðurlandaþjóðirnar haldi Evrópumótið í fótbolta í sameiningu. Þetta kemur fram á heimasíðu danska sambandsins.

Norðurlandaþjóðirnar munu sækjast eftir því að halda annaðhvort EM 2024 eða EM 2028 en forystumenn norrænu sambandanna hittust á fundi í Zürich í Sviss í síðustu viku.

Danir ætla sér að halda Evrópumótið með Svíþjóð, Noregi og Finnlandi en Ísland og Færeyjar verða ekki með í þessum pakka.

Evrópumótið inniheldur nú 24 þjóðir og það þýðir 51 leikur á rúmum mánuði.

Það er vitað að Þýskaland og Tyrkland hafa áhuga á því að halda EM 2024. Hollendingar hafa einnig sýnt áhuga sem og Eistar í samvinnu við Rússa.   

Næsta Evrópumót fer fram í Frakklandi næsta sumar og eftir fjögur ár verður mótið dreift á þrettán þjóðir Evrópu. Danir munu halda fjóra leiki í þeirri keppni.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun ákveða það vorið 2017 hvar Evrópumótið fer fram eftir rúm átta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×