Viðskipti innlent

Slitastjórn Glitnis: Steinunn og Páll skiptu með sér 381 milljón í fyrra

Ingvar Haraldsson skrifar
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, sem skipuðu slita­stjórn Glitnis, fengu 381 milljón greidda fyrir vinnu sína fyrir Glitni á síðasta ári. Greiðslurnar voru tvöfalt hærri en árið 2014 þegar þær námu 190 milljónum króna. Miðað við upplýsingar úr uppgjörum Glitnis kom stærstur hluti greiðslnanna til á síðari hluta ársins, þegar slitastjórnin fékk 263 milljónir króna greiddar.

Launagreiðslur til Kristjáns Óskarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Glitnis, námu 64 milljónum króna á síðasta ári en voru 46 milljónir króna árið 2014.

DV greindi frá því í september að tímagjald slitastjórnarinnar hefði verið hækkað í 57 þúsund krónur í byrjun síðasta árs. Tímagjaldið hafi verið 16 þúsund krónur í upphafi slitameðferðar búsins árið 2009.

Þá greiddi slitastjórnin 4,4 milljarða fyrir ráðgjafarstörf sem er hækkun um 1,1 milljarð milli ára. Mest munar um hækkun á innlendri og erlendri lögfræðiráðgjöf sem nam 2,6 milljörðum á síðasta ári en milljarði árið 2014.

Heildarlaunagreiðslur til almennra starfsmanna slitabúsins námu 388 milljónum króna en þeir voru að jafnaði 18 á árinu að viðbættum þremur verktökum sem störfuðu fyrir Glitni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×