Þeir sem fylgdust með fréttum sumarið 2014 af umbrotunum í Bárðarbungu muna eflaust eftir því hvernig vísindamenn nánast sáu kvikuganginn færast til norðausturs út frá eldstöðinni og undir Dyngjujökul. Flogið var reglulega yfir jökulinn og einn daginn sögðu menn meira að segja að gos væri byrjað. En ekkert sást á jöklinum. Svo þegar loksins sást í jarðeld, þá var það í Holuhrauni skammt norðan Dyngjujökuls.
Eitt ár er liðið frá lokum eldgossins í Holuhrauni. Í Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hafa vísindamenn verið að rannsaka þennan atburð og komist að því að meira gerðist undir Vatnajökli en áður var vitað um, í síðari hluta ágústmánaðar og fram í byrjun september.
„Já, það er held ég alveg ljóst að það hafa orðið gos undir jökli, sennilega á fjórum stöðum í þessari atburðarás meðan gangurinn var að fara frá Bárðarbungu og norður í Holuhraun,” segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í viðtali við Stöð 2.
Breskur doktorsnemi í jarðeðlisfræði, Hannah Reynolds, hefur staðsett gosstaðina en þrír þeirra voru undir Dyngjujökli en sá fjórði rétt suðaustan við öskju Bárðarbungu. Hún kveðst alveg viss um að þarna urðu eldgos.
„Já, ég er sannfærð um það,” segir Hannah.

„Það er engin önnur skýring tiltæk en að þarna hafi orðið smágos undir jöklinum. Það komu nú engin hlaup, væntanlega vegna þess að það fylgdi þessu mikil gliðnun, og það bræðsluvatn sem varð til, fór ofan í þær sprungur sem urðu til í gliðnuninni. Þetta var ekki meira en svo,” segir Magnús.
Og Bárðarbunga heldur áfram að nötra. Nýjustu skjálfta telur Magnús Tumi þó fremur skýrast af sigi öskjunnar eftir Holuhraunsgosið en að nýtt gos sé yfirvofandi.
„Ég held að þessir skjálftar séu ekkert endilega merki um það að hún sé að búa sig undir gos, svona í bráð. Sennilegt að það sé nú dálítill tími í að hún gjósi aftur. En við getum samt ekkert gefið okkur neitt í því. Við verðum að fylgjast mjög vel með, ef það verða breytingar,” segir Magnús Tumi Guðmundsson.
