Erlent

Kynferðisbrot kaþólskra presta: Hunsaði ábendingu um brot gegn drengjum

Bjarki Ármannsson skrifar
George Pell kardináll, fjárhirðir Páfagarðs, viðurkennir að hafa ekki brugðist við þegar ungur drengur við kaþólskan skóla í Ballarat í Ástralíu sagði honum að einn prestanna við skólann væri að misnota drengi árið 1974.
George Pell kardináll, fjárhirðir Páfagarðs, viðurkennir að hafa ekki brugðist við þegar ungur drengur við kaþólskan skóla í Ballarat í Ástralíu sagði honum að einn prestanna við skólann væri að misnota drengi árið 1974. Vísir
George Pell kardináll, fjárhirðir Páfagarðs, viðurkennir að hafa ekki brugðist við þegar ungur drengur við kaþólskan skóla í Ballarat í Ástralíu sagði honum að einn prestanna við skólann væri að misnota drengi árið 1974. Þetta kom fram í vitnisburði Pell fyrir opinberri rannsóknarnefnd á vegum ástralskra stjórnvalda.

Presturinn sem kvartað var undan umrætt sinn, Edward Dowlan, var í fyrra dæmdur í fangelsi fyrir að misnota unga drengi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hann hefur breytt nafni sínu í Ted Bales.

Rannsókn stendur nú yfir í Ástralíu á meintum ítrekuðum kynferðisbrotum kaþólskra presta í Ballarat og Melbourne. Pell kardináll sagði í morgun að hann hefði átt að grípa til einhverra aðgerða vegna ásakananna á hendur Dowlan og sagði það „skelfilega tilviljun“ að  fimm barnaníðingar hafi starfað við sama skólann og sömu sóknina í Ballarat á áttunda áratugnum.

Fórnarlömb vilja áheyrn Páfans

„Tilviljun eða hitt þó heldur, þetta var augljóslega kerfisbundið,“ segir Stephen Wood, einn þeirra sem máttu þola kynferðisbrot af hálfu prestanna og hafa ferðast til Rómar til að óska eftir fundi með Páfanum og með Pell. Wood segist í samtali við BBC hafa verið beittur kynferðisofbeldi frá ellefu ára aldri.

Pell kardináll, sem bar vitni símleiðis frá Páfagarði, neitaði því í vitnisburði sínum að hafa mútað ungum dreng til að fá hann til að segja ekki frá misnotkun af hálfu Gerald Ridsdale, annars prests sem ítrekað braut gegn ungum drengjum. Ridsdale var frændi drengsins, sem hefur sagt að kardinállinn hafi mútað honum til þess að þegja.

Peter Blenkiron, sem varaði Pell við hegðun Dowlan sem ungur drengur, er einnig meðal þeirra sem ferðast hafa til Rómar. Hópurinn segist vongóður um að fá áheyrn Frans Páfa á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×